139. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[01:29]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hóf mál mitt á því að segja að hér væri búið að ræða gríðarlega mikið um útgjaldahlið frumvarpsins og að ég mundi einbeita mér að tekjuhliðinni, þá fyrst og fremst að forsendum þess hvernig tekjurnar ættu að koma inn og sköttunum sjálfum. Ég rakti í ræðu minni álitamál sem hafa vaknað við það að hugsa um þessar skattahækkanir og notaði til þess frekar einfalda hagfræði.

Hv. þingmaður spyr hvort ekki sé nauðsynlegt að hækka skatta. Ég felst á að nauðsynlegt er að auka tekjurnar. Það getum við annars vegar gert með því að að breikka skattstofnana, þ.e. reyna að endurheimta aftur skattstofna sem töpuðust í hruninu, en hins vegar er rétt að það er líka hægt að skatta. Það sem ég hef verið að segja er að það dýpkar fjármálakreppuna og lengir hana eins og raunin virðist verða.

Við sjálfstæðismenn höfum lagt til leiðir til þess að fjármagna þetta gat með skattlagningu á séreignarsparnaði sem hefur ekki þau óæskilegu áhrif sem ég hef verið að lýsa, mundi ekki rýra ráðstöfunartekjur heimila þannig að einkaneyslan væri komin mun betur af stað, mundi ekki lækka arðsemi fjármagnsins þannig að fyrirtækin væru farin að fjárfesta meira og skattstofnarnir mundu endurheimtast á miklu meiri hraða en þeir gera. Þeir eru reyndar ekki að endurheimtast, þeir eru enn að dragast saman. Þetta er (Forseti hringir.) röksemdafærslan sem við sjálfstæðismenn höfum notað.