139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[16:29]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég bendi bara þingmönnum á að í sambandi við þann niðurskurð á heilbrigðissviði sem við greiddum atkvæði um áðan vorum við að tala um 3 milljarða kr. sem raska öryggismörkum fólks um allt land. Hér ætluðum við að hlaupa yfir lið sem heitir ófyrirséð útgjöld upp á 3,9 milljarða kr., þ.e. um 1 milljarði kr. hærri tala en sú tala sem við erum búin að hafa mestar áhyggjur af í marga mánuði. Við höfum gagnrýnt að sú stefna sem ríkisstjórnin kom fram með hafi ekki verið í samráði við fagmenn og heimamenn um allt land. Ég vil lýsa því yfir, og hefði gjarnan viljað heyra hæstv. ráðherra lýsa því yfir líka, að stefnan er röng. Hæstv. ráðherra hefði átt að segja að menn hefðu snúið frá henni og mundu snúa sér að samráði og reyna að byggja þetta upp á nýjan hátt. En í þessum lið væri ágætt að það kæmi fram einhver stefna (Forseti hringir.) um hvernig menn ætla að eyða 4 milljörðum kr.