139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

orka í jörð í Þingeyjarsýslum.

232. mál
[11:24]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Við höfðum reyndar samband við Orkustofnun vegna þess að þarna er alltaf um eitthvert ákveðið mat að ræða þegar orkan hefur ekki verið sótt. Í svari Orkustofnunar til ráðuneytisins er vísað til skýrslu Orkustofnunar um mat á vinnslugetu háhitasvæða sem var gefin út árið 2009. Við matið er beitt ákveðinni rúmmálsaðferð og samkvæmt henni eru fjögur háhitasvæði, þ.e. Fremrinámar, Krafla-Námafjall og Gjástykki, talin geta gefið um 650 megavött.

Virðulegi forseti. Við skulum hafa í huga að ríkisstjórnin er að skoða það að friða Gjástykki algerlega. Ef við tökum það til hliðar nær matið til um 590 megavatta á svæðinu.

Í svari Orkustofnunar verður líka að hafa í huga að þar eru settir ýmsir varnaglar og lögð áherslu á að þarna er eingöngu um mat að ræða eftir ákveðinni formúlu. Síðan hefur komið fram umhverfismat, sameiginlegt mat eða nýlegt álit frá Skipulagsstofnun um mat á umhverfisáhrifum vegna álvers á Bakka. Þar er sagt að gera megi ráð fyrir um 440 megavatta samanlögðu afli þessara virkjana, þ.e. Kröflu og Þeistareykjum ásamt Bjarnarflagsvirkjun. Matið er á þessu bili. Í skýrslu Orkustofnunar kemur fram að hafa beri í huga að yfirborðsrannsóknum sem þessum skuli ávallt taka með fyrirvara þar sem viðnámsmælingar gefa ekki endanlegar upplýsingar um núverandi hitaástand heldur eingöngu það ástand sem ríkti þegar ummyndunarsteindirnar mynduðust.

Nefna má nokkur dæmi þar sem mæld viðnámsdreifing hefur ekki endurspeglað núverandi hitaástand, t.d. í hlutum jarðhitakerfisins í Kröflu þar sem hitastig reyndist mun lægra en ummyndunin gaf til kynna. Þá hefur viðkomandi svæði kólnað frá því að ummyndunin átti sér stað. Mat á vinnslugetu háhitakerfa er því háð rannsóknarborunum til að staðfesta hitaástand jarðhitakerfisins og til að meta lekt jarðhitageymisins. Virkjun jarðhitans í hæfilegum þrepum er því æskileg nálgun til að draga úr áhættu. Það verður ávallt þannig með jarðvarmann, virðulegi forseti, að vísindamenn gera ákveðið mat, eins og ég hef greint frá hér, með fyrirvörum sem ég greindi líka frá, en síðan svarar náttúran því á endanum hversu mikil orka kemur þarna upp. Þannig hefur það verið í allri okkar jarðhitanýtingarsögu. Það verða þess vegna ekki stjórnmálamenn sem meta þetta á endanum, þetta er ekki efni til að takast á um í þingsölum eins og oft hefur borið við og menn reynt að kalla ráðherra á teppið út af mögulegu magni af orku í jörðu. Það er auðvitað ekki svo að það sé hægt.

Virðulegi forseti. Ég held að við séum öll orðin sammála um, og það er líka stefna Landsvirkjunar sem á orðið 93% af svæðinu, að þarna verði að virkja í hægum skrefum til að fara sem best með svæðið og orkan verði nýtt með sjálfbærum hætti. Það eru eingöngu rannsóknaboranir sem segja okkur endanlega til um hvað þarna er að finna. En matið er á bilinu 440–590 megavött.