139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

fjölgun öryrkja.

239. mál
[13:54]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Frú forseti. Hér stöldrum við við stór og mikil réttindamál, heilsuréttinn til vinnu og eftir atvikum réttinn til menntunar. Starfsendurþjálfun er margvísleg sem öryrkjum hefur boðist og í ríkari mæli en verið hefur á undanförum mánuðum og árum. Það er vel.

Ég vil reyndar byrja á því að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir ítarlegt og vel unnið svar og mættu reyndar aðrir ráðherrar taka þetta svar hæstv. ráðherra sér til fyrirmyndar því það var vel unnið í alla staði. Hér eru engin nöfn nefnd.

Ég vil þessu næst beina orðum mínum til hæstv. ráðherra er varðar getu og færi öryrkja sem af margvíslegum ástæðum komast í hópinn til að taka þátt í atvinnulífinu án þess að kjör þeirra skerðist svo mjög að breytnin sé þeim óboðleg. Hvernig hefur ríkið hugsað sér að koma til móts við 16.000 Íslendinga sem fylla þann stóra hóp öryrkja til að skila sér aftur út í atvinnulífið? Ég tel mikilvægt að ríkið beiti sér með margvíslegum hætti fyrir því að hópurinn komist aftur til starfa, geri sjálfu sér og samfélaginu gagn með því að komast út á vinnumarkaðinn en mér hefur sýnst að þessum hópi sé fyrst og fremst refsað fyrir vilja í þá veru. Ber að breyta því með einhverjum hætti, hæstv. ráðherra?