139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

störf þingsins.

[11:40]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að vekja athygli hv. þingmanna á svari við fyrirspurn hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur um verðtryggð lán íslenskra heimila og fyrirtækja. Mér hefur fundist fara lítið fyrir þessu svari í umræðunni. Hv. þingmaður spurði hversu mikið skattahækkanir vinstri stjórnarinnar hefðu hækkað skuldir heimilanna. Bara á tímabilinu 1. febrúar til 1. október á þessu ári hækkuðu skuldirnar, einungis út af skattahækkunum vinstri stjórnarinnar, um tæplega 16 milljarða kr. Það eru nærri 2 milljarðar kr. á mánuði ef maður leikur sér aðeins með tölur. Hæstv. ríkisstjórn er að hækka skatta á fólk sem gerir það að verkum að það hefur miklu minna milli handanna. (MÁ: Af hverju skyldi það nú vera?) Í ofanálag — (MÁ: Af hverju skyldi það nú vera?) Er hv. þm. Mörður Árnason að fara á taugum enn og aftur? Í ofanálag (Gripið fram í: Það var nú …) eru skuldirnar að hækka (Gripið fram í.) þannig að tekjurnar lækka en skuldirnar og afborganir hækka. (Gripið fram í: Kostar að …) Það segir sig sjálft, virðulegi forseti, að ekki aðeins er óróleiki hv. þingmanna og hæstv. ráðherra Samfylkingarinnar merki um að þeir eru með slæma samvisku — ég ráðlegg þessu fólki að fara að líta á aðrar leiðir. Þessi leið gengur ekki upp. (Gripið fram í: Hvernig eiga …?) Við höfum kynnt efnahagstillögur sjálfstæðismanna sem eru valkostur við þessa skattpíningar- og skuldahækkanaleið (Gripið fram í.) og ég hvet alla stjórnarliða (Forseti hringir.) til að skoða þetta, sérstaklega þá stjórnarliða sem líður illa undir þessum staðreyndum. Þeir eru ekki fáir í þessum sal. [Kliður í þingsal.]