139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

aðstoð við þurfandi.

[10:50]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Það kann að virka hálfaumingjalegt en það eina sem við getum gert eða beðið fólk sem er í þessari stöðu að gera er að leita til sveitarfélagsins síns. Það er sá vettvangur þar sem menn bera ábyrgð á því að tryggja að fólk geti haldið framfærslunni. (BirgJ: Þeim er vísað annað.) Hv. þingmaður segir að þeim sé vísað annað. Það er alveg hárrétt, það er líka mismunandi eftir sveitarfélögum og eftir því hver staðan er. Þau fylgja ákveðnum kvörðum. Þess vegna sagði ég að í sjálfu sér væri þetta aumt úrræði. Á sama hátt hefur sá sem hér stendur sem ráðherra engan úthlutunarpott til að taka á móti einstaklingum og veita þeim fé.

Það sem skiptir mestu máli er að við vinnum sameiginlega að því að finna út hverjir þetta eru. Í fjárlagatillögunum í dag kemur hækkun á verðtryggingu á örorkubætur. Það er verið að stíga skref í þessa átt. Það kemur reglugerð frá mér í mánuðinum um að framfærsla sveitarfélaganna verði hækkuð verulega eins og Reykjavíkurborg er þegar búin að ákveða og ég veit að Kópavogur (Forseti hringir.) er að vinna að. Það eru allir að leita leiða og við þurfum að ná samstöðu með hjálparsamtökunum. Vandamálið er til staðar og óviðunandi þannig að ég vona að við getum stigið skref í rétta átt í framhaldinu.