139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

störf þingsins.

[10:39]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Mér finnst ástæða til að nefna hérna og taka upp vegna umræðu um vegaframkvæmdir, fyrirhuguð útboð á stórframkvæmdum í einkaframkvæmd og fjármögnun þess með notendagjöldum eða veggjöldum. Sú umræða hefur farið inn á miklar villigötur og skemmt fyrir málefnalegri umræðu um þá annars góðu hugmynd að koma stórframkvæmdum upp á 40 milljarða kr. í framkvæmd þannig að þær framkvæmdir geti gengið yfir á 2–3 árum í stað þess að taka jafnvel áratugi. Þá erum við að tala um tvöföldun og breikkun stofnbrauta út frá Reykjavík.

Það var sett inn í umræðuna fyrir nokkrum dögum að verið væri að skoða að innheimta allt að 7 kr. gjald á ekinn kílómetra í stað þess að innheimta samræmt hóflegt gjald eins og rætt var um í upphafi upp á 150–180 kr. á ferð fyrir utan svo afslætti sem kæmu til vegna fastra notenda o.s.frv. Þess vegna er nauðsynlegt að leiðrétta umræðuna og taka fram að þessi forsenda hefur aldrei nokkurn tímann verið útfærð eða rædd með þessum hætti, heldur hefur alltaf verið gengið út frá því í öllum hugmyndum um málið að um yrði að ræða samræmda hóflega gjaldtöku, jafna inn á allar stofnbrautirnar, en að ekki væri verið að mismuna íbúum eftir búsetu. Það er algjört grundvallaratriði og nauðsynlegt að halda því til haga af því að umræður um annað, að það kosti 700 kr. að aka fram og til baka aðra leiðina en 100 kr. hina, stórskaða að sjálfsögðu alla umræðu um þetta mikilsverða mál sem er nauðsynlegt að ræða og leiða til lykta á málefnalegum og réttum forsendum. Þetta liggur þessu til grundvallar, að um sé að ræða jafna, hóflega gjaldtöku óháð því um hvaða stofnbraut út frá borginni er verið að ræða en ekki himinháa gjaldtöku af eknum kílómetrum inn á eina og lága út á aðra út af því að þar er framkvæmdafé (Forseti hringir.) nægilegt.