139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[12:38]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Við sjáum þess stað í þessari atkvæðagreiðslu að verið er að skipta á milli hæstvirtra ráðherra Össurar Skarphéðinssonar og Ögmundar Jónassonar fjárveitingum sem áður tilheyrðu Varnarmálastofnun. Eins og allir vita hefur vinstri stjórnin ákveðið að leggja þá stofnun niður og þeir komu örugglega saman, eins og talað var um áðan, í reykfylltu bakherbergi og skiptu þessu á milli sín, þó aðeins til bráðabirgða að einhverju leyti og því verð ég að lýsa enn á ný yfir andstöðu minni við þessi vinnubrögð. Hér er farið kolrangt að, byrjað á því að leggja niður stofnun, síðan er ákveðið hvert verkefnin eiga að fara. Þetta eru handarbakavinnubrögð sem eiga ekki að líðast.