139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[17:48]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að hér er auðvitað á ferðinni ósköp einfalt hagsmunamat. Borgar sig að ljúka máli með sátt fremur en að fara með það lengra? Er nægilegur ávinningur í því að gera sáttina? Þess vegna spyr ég hv. þingmann, vegna þess að hann hefur staðfest að hann telur ekki neina efnahagslega hættu í samningnum, hvort hann telji ekki líka að frá því að málið var hér síðast til umfjöllunar hafi mjög dregið úr áhættu í málinu, m.a. með tilvísun til ESA og þeirrar reynslu sem komin er á heimtur af eignum Landsbankans og ýmissa annarra óvissuþátta sem áður voru?

Síðan hafa komið fram ýmsar tölur um mismun á þessum samningi og fyrri samningum, allt frá 65 milljörðum kr., held ég, og t.d. 115 milljarðar kr. Nú heyri ég hv. þingmann tala um 443 milljarða kr. og af því að ég ber mikla virðingu fyrir hv. þingmanni sem hagfræðingi treysti ég honum til að geta í rauninni leitt fram ýmsar tölur í því sambandi. Þess vegna spyr ég hann að lokum hvort hann treysti sér til að leiða líkum að því að það væri 5 þús. milljarða kr. munur á þessum samningum eða hvort það séu í rauninni nokkur mörk á því hvað hægt er að leiða í ljós gríðarlegan mun á samningunum ef maður reiknar nógu lengi.