139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

rannsókn á Íbúðalánasjóði.

22. mál
[22:15]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. allsherjarnefnd fyrir að afgreiða til síðari umr. þessa þingsályktunartillögu sem ég var 1. flutningsmaður að ásamt sex öðrum hv. þingmönnum. Ég vil þó sérstaklega þakka formanni nefndarinnar, hv. þm. Róbert Marshall, fyrir afskaplega vandaða vinnu sem hann leiddi af mikilli elju.

Tillagan er til komin vegna ályktunar rannsóknarnefndar Alþingis um að breytingar á fjármögnun og lánareglum Íbúðalánasjóðs hafi stuðlað að verulegu ójafnvægi í hagkerfinu og falið í sér ein af stærri hagstjórnarmistökum í aðdraganda að falli bankanna. Það kom fram í máli hv. þingmanna sem töluðu á undan mér að hún væri ansi snubbótt og ég tek undir það og vil kannski skýra af hverju svo er en orðalag hennar var í samræmi við aðrar tillögur í þingsályktunartillögunni sem kom úr vinnu þingmannanefndarinnar og þessi tillaga var upphaflega breytingartillaga við þá tillögu og var þar af leiðandi sett í sama búning. Þetta hefði ég auðvitað átt að athuga þegar ég flutti hana aftur samkvæmt samkomulagi í upphafi nýs þings í október en þar verð ég að segja að reynsluleysi mitt í þingstörfum er væntanlega stærsti orsakavaldurinn. En með góðum formanni allsherjarnefndar var auðvelt að kippa því í liðinn og ég fékk möguleika á að koma að útfærslu á nánari útlistun á þessari tillögu sem er innan þess ramma sem segir í upphaflegu tillögunni sem var um starfsemi Íbúðalánasjóðs frá aðdraganda breytinganna á fjármögnun og lánareglum Íbúðalánasjóðs sem hrint var í framkvæmd á árinu 2004. Þetta er bara nánari útlistun á því en auk þess hefur verið bætt við, sem ég hef ekkert við að athuga, að hún taki jafnframt til rannsóknar á innkomu bankanna á íbúðalánamarkaðinn, enda er vitað mál að það var gert með mjög óábyrgum hætti og af vanbúnaði en miklu offorsi.

Það má segja að samspilið við þessa innkomu bankanna hafi komið sérlega illa niður á Íbúðalánasjóði vegna þess að hann hafði breytt um fjármögnunarkerfi, hann var farinn að fjármagna sig með annars konar skuldabréfum en áður og vegna þeirrar lausafjárstýringar sem var stunduð innan sjóðsins eftir innkomu bankanna og uppgreiðslu lána hjá Íbúðalánasjóði. Ég er mjög sátt við þessa vinnu nefndarinnar og tel raunar að hún hafi verið nauðsynleg í ljósi þeirrar 33 milljarða kr. heimildar sem við vorum að veita fjármálaráðherra til að leggja sjóðnum til vegna eiginfjárstöðu.

Síðan hefur komið fram breytingartillaga við þessa þingsályktunartillögu frá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur. Það er skemmst frá því að segja að ég mun ekki styðja þá breytingartillögu, enda tel ég hana ekki hafa neitt með ályktun rannsóknarnefndar Alþingis að gera sem var um breytingar á fjármögnun og lánareglum Íbúðalánasjóðs. Hún nefndi mistök sem hún rakti til hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur, þáverandi hv. þingmanns og hæstv. félagsmálaráðherra, varðandi útlán til sveitarfélaga vegna félagslegs húsnæðis. Ég held að hér hljóti að vera um einhvern misskilning að ræða því að hér er svar við fyrirspurn til skriflegs svars — það er fylgiskjal með breytingartillögunni — á þskj. 230 í máli 103 frá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur þar sem spurt er, með leyfi forseta:

„Hversu mikið skulda sveitarfélögin Íbúðalánasjóði vegna kaupa þeirra á félagslegu húsnæði?

Í svari kemur fram að þetta séu tæpir 44 milljarðar. Ekki er sundurgreint þarna hvað tilheyrir hvaða lánakerfi en það er ljóst að núverandi lán Íbúðalánasjóðs, félagsleg lán á 3,5% vöxtum sem fara til sveitarfélaganna til félagslegs leiguhúsnæðis, eru alla vega góður hluti af þessum útlánum, 44 milljörðum, og hafa ekkert sérstaklega með Byggingarsjóð verkamanna að gera þó að svo kunni að vera að einhver af þessum lánum megi rekja þangað. Ég held að stór hluti af þessu séu hin svokölluðu 3,5% lán þar sem ríkið greiðir muninn á markaðsvöxtum sem Íbúðalánasjóði bjóðast til að fjármagna sig og 3,5% sem félagslegu lánin eru á. Það er líka rétt að taka fram, af því að hv. þingmaður leiðir að því líkur í breytingartillögu sinni að afskriftirnar megi rekja til Byggingarsjóðs verkamanna, að vanskilin af þessum lánum eru 7,5 milljónir af þessum 44 milljörðum svo ég sé ekki alveg hvaða bráða hætta á að vera í þessu. En svo kann vel að vera að áhætta sé fólgin í þessum lánaflokki en hann er einn af lánaflokkum Íbúðalánasjóðs og það kemur væntanlega fram í rannsókninni.

Að lokum vil ég segja um CAD-hlutfall sjóðsins að það er náttúrlega ekkert sem mælir gegn því að sjóður með ríkisábyrgð sé með neikvæða eiginfjárstöðu en það mundi teljast léleg starfsemi ef menn væru að fjármagna sig á markaði með neikvætt eigin fé. Það lýsir því að ríkið sé ekki mjög agað í vinnubrögðum sínum ef það leyfir sínum sjóðum að vera í því ástandi og mun hafa áhrif til lengri tíma á lánshæfi sjóðsins og kann að hafa áhrif inn í ríkissjóð ef ljóst er að þar sé ekki dugur til að taka á rekstrarvanda stórra lánafyrirtækja sem ríkisvaldið ber ábyrgð á. Ég skil ekki þá hugmyndafræði að það sé eðlilegt að lánastofnanir reki sig með neikvæðu eigin fé en vilji menn vera í einhvers konar áætlunarbúskap má vel vera að það geti gengið en ef við ætlum að vera með markaðsfjármögnun eins og verið hefur með Íbúðalánasjóð mæli ég eindregið gegn því.

Ég lýk svo ræðu minni á því að endurtaka þakkir mínar til allsherjarnefndar og vona að það verði breiður stuðningur við þessa þingsályktunartillögu.