139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

rannsókn á Íbúðalánasjóði.

22. mál
[22:56]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það væri kannski ágætt að fá skoðun hv. þm. Róberts Marshalls, sem er formaður allsherjarnefndar, á þessu með tímabilið. Ég get ekki skilið tillögugreinina öðruvísi en verið sé að tala um að rannsökuð verði fyrst og fremst starfsemi sjóðsins frá aðdraganda breytinganna á fjármögnun og lánareglum hans sem hrint var í framkvæmd á árinu 2004 til ársloka 2010.

Ég tel að fyrst við erum á annað borð að stofna til rannsóknar á starfsemi Íbúðalánasjóðs væri eðlilegast að skoða starfsemina frá upphafi, sérstaklega í ljósi ábendinga hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur um þær skuldir sem sjóðurinn yfirtók við samruna Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna. Ég þekki af reynslu úr mínu eigin sveitarfélagi erfiðleika vegna þeirra bygginga sem voru fjármagnaðar þá. Það hefur verið húsnæðið sem Íbúðalánasjóður hefur átt í vandræðum með og þurft að losa sig við og mér skilst að staðan hafi verið svipuð á fleiri stöðum. Þannig fengjum við heildarmyndina.

Það er í raun og veru von mín að í anda ályktana þingmannanefndarinnar sé þetta eitthvað sem við getum hugsanlega komist að sameiginlegri niðurstöðu um áður en við förum í atkvæðagreiðslu því að ég held að það sé grundvöllur fyrir sátt í þessu máli.