139. löggjafarþing — 51. fundur,  17. des. 2010.

Icesave.

[10:44]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það vakti athygli mína að hæstv. dómsmálaráðherra treysti sér ekki til að vera ósammála hæstv. forsætisráðherra í máli sem hér var rætt. Ég ætla ekki að ræða það frekar en það hlýtur að vera nokkur frétt.

Hann er eins og við vitum þungavigtarmaður í pólitík og var sérstaklega fenginn í ríkisstjórnina til að tryggja meiri hlutann fyrir fjárlögunum og hefur líka verið mjög áberandi í umræðunni um Icesave. Ég ætla að spyrja hæstv. ráðherra um nokkuð sem ætti auðvitað ekki að þurfa að spyrja um en ég held að allir skilji í ljósi sögunnar að það sé afskaplega mikilvægt að fá þær upplýsingar: Hefur Icesave-frumvarpið og málið ekki örugglega verið samþykkt í ríkisstjórn og í þingflokkunum?

Síðan er hitt að hæstv. ráðherra greiddi atkvæði með því að Icesave-málið færi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hver er skoðun hæstv. ráðherra á því máli núna? Mundi hann styðja að samkomulagið sem liggur fyrir núna færi í þjóðaratkvæðagreiðslu? Þetta eru einstaklega einfaldar spurningar.

Ég endurtek þær samt: Hefur Icesave verið samþykkt í ríkisstjórn? Hefur það verið samþykkt í þingflokkunum, og eru allir með? Síðan hitt: Styður hæstv. dómsmálaráðherra að Icesave fari í þjóðaratkvæðagreiðslu?