139. löggjafarþing — 53. fundur,  17. des. 2010.

vextir og verðtrygging o.fl.

206. mál
[23:56]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar að fá betri útskýringar á því sem kemur fram í lögskýringargagni með frumvarpinu.

Þar stendur, með leyfi forseta:

„Fyrirtækin eru oftar en ekki með raunverulegar eða keyptar gengisvarnir, eins og augljóslega má ráða af tölum um hlutfall sjávarútvegsfyrirtækja í þessum hópi skuldara samkvæmt tölunum hér að framan. Slík fyrirtæki hafa engu tjóni orðið fyrir og því bersýnilega ósanngjarnt að þau njóti einhvers ávinnings á kostnað viðsemjenda sinna …“

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún vilji útskýra aðeins fyrir mér þessar gengisvarnir sem verið er að vitna til og líka hvort hv. þingmaður telji eðlilegt að í frumvarpinu standi að fyrirtæki sem eru með erlend lán hafi ekki orðið fyrir neinu tjóni.

Síðan vil ég spyrja hv. þingmann af því að það kemur fram hér að gengistryggingin er ólögleg, eins og er rökstutt með dómi Hæstaréttar, hvort þessar tvær fullyrðingar stangist ekki auðsjáanlega á. Það kemur skýrt fram fyrr í plagginu að bankastofnanirnar vissu þegar lögin voru sett á sínum tíma að gengistryggingin væri ólögleg — gerði ég athugasemdir við það í frumvarpinu sem ekki var tekið tillit til — eins og Hæstiréttur benti á. Hvernig getur hv. þingmaður fært rök fyrir því sem hér stendur í frumvarpinu?