139. löggjafarþing — 53. fundur,  18. des. 2010.

fjarskipti.

394. mál
[03:15]
Horfa

Flm. (Björn Valur Gíslason) (Vg):

Forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 81/2003, um fjarskipti, með síðari breytingum. Ásamt mér flytur þetta mál meiri hluti samgöngunefndar, hv. þingmenn Róbert Marshall, Ólína Þorvarðardóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Mörður Árnason og Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Samgöngunefnd hefur að undanförnu haft til umfjöllunar frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003, með síðari breytingum, sem unnið hefur verið að í samráði við Póst- og fjarskiptastofnun.

Í stuttu máli snýr það frumvarp að úthlutun eða endurúthlutun á tíðniréttindum á tilteknum tíðnisviðum til ákveðins tíma gegn gjaldi o.fl. sem að hluta til er vegna innleiðingar á EES-tilskipunum sem okkur er gert að sinna.

Samgöngunefnd hefur ákveðið að taka sér lengri tíma til að fjalla um frumvarpið í heild sinni en hins vegar telur nefndin að strax þurfi að bregðast við ákveðnum atriðum þess með framlagningu þessa frumvarps. Með því er gerð breyting á gildandi lögum um fjarskipti í þá veru að heimilt er að úthluta tíðniréttindum til skemmri tíma en áður og þá skal gjald tekið fyrir réttindin vera í hlutfalli við þann tíma sem úthlutað er. Samkvæmt gildandi lögum skal úthluta tíðniréttindum til tíu ára í senn og gegn gjaldi fyrir upphæð allt að 16.600 millj. kr. Það gjald hefur verið óbreytt í áratug og ekki tekið neinum breytingum.

Í því frumvarpi sem hér er mælt fyrir er gert ráð fyrir að gjaldið verði fært til núvirðis í samræmi við breytingu á vísitölu neysluverðs. Gjaldtökuheimildin gerir hins vegar ráð fyrir því að mismunandi gjald sé innheimt fyrir mismunandi tíðniheimildir og verði gjaldið að hámarki 30 milljónir fyrir tíðniheimildir sem séu um 10 MHz að stærð.

Forseti. Þó svo að frumvarpið sé lagt fram af meiri hluta samgöngunefndar er enginn ágreiningur um meðferð þess máls innan samgöngunefndar. Það er sömuleiðis samkomulag í nefndinni um að óþarft sé að vísa málinu til nefndar á milli umræðna og mælist ég því til þess, er þessari umræðu lýkur, að málinu verði vísað til 2. umr.