139. löggjafarþing — 54. fundur,  18. des. 2010.

virðisaukaskattur.

208. mál
[10:59]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta mál snýst um að auka samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Það snýst líka um nýsköpun og fjölbreyttara atvinnulíf hér á landi. Alþjóðlegar rannsóknir sýna að Ísland er eitt af fjórum löndum í Evrópu sem hentar best fyrir uppbyggingu á gagnaveraiðnaði og þó að það sé rétt sem hér hefur komið fram að tekið hafi langan tíma að koma þessu máli í gegn er eðlilegt að menn flýti sér hægt þegar um er að ræða nýja starfsemi sem engin reynsla er af hér á landi og að við flýtum okkur hægt við uppbyggingu á stoðkerfi atvinnulífsins.

Ég vil þakka þingmönnum úr öllum flokkum sem liðkað hafa fyrir þessu máli og ég vil sömuleiðis þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir liðveislu hans í málinu. Þó að menn hafi þar eðlilega haft varúðarsjónarmið á lofti skulum við ekki ganga þess gruflandi að málið væri ekki komið til afgreiðslu nema af því að hæstv. fjármálaráðherra var tilbúinn að liðka fyrir því á lokametrunum. (BJJ: Maður á að hneigja sig. Það er rétt.)