139. löggjafarþing — 54. fundur,  18. des. 2010.

fjarskipti.

394. mál
[12:56]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Örfá orð um þetta mál. Eins og komið hefur fram er um nokkuð flókið mál að ræða sem fékk einhverja umfjöllun í samgöngunefnd, það hafði ekki fengið mjög mikla umfjöllun þar. Ég átti þess kost að sitja einn fund í nefndinni þar sem málið var til umfjöllunar og frá mínum bæjardyrum séð lítur það þannig út að það þurfti frekari vinnslu við. Það var afstaða mín eftir að hafa skoðað það lítillega að það þyrfti frekari vinnslu við. Hins vegar væru jafnframt ríkir hagsmunir til að afla heimilda til að taka gjald til úthlutunar tíðniréttinda sem renna út fljótlega á næsta ári. Það voru þess vegna ríkir almannahagsmunir að það kæmist í gegn. Með tilliti til þess að ýmsir nefndarmenn töldu að það þyrfti meiri umræðu í nefndinni en tími var til fyrir jólin vil ég nota tækifærið og þakka öllum nefndarmönnum í samgöngunefnd, bæði þeim sem flytja þetta frumvarp en einnig og ekki síður fulltrúum stjórnarandstöðunnar í samgöngunefnd sem liðkuðu fyrir því að sá háttur yrði hafður á. Það var mikilvægt til að koma þessu fram og ég sé ekki ástæðu til annars en að þakka þeim fyrir það. Enda þótt þeir hafi ekki viljað vera meðflutningsmenn á málinu eiga þeir að sjálfsögðu þakkir skilið fyrir að hafa liðkað fyrir framgangi málsins með þeim hætti sem þeir gerðu.