139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

rannsóknarnefnd um aðdraganda ákvörðunar um stuðning Íslands við innrásina í Írak árið 2003.

147. mál
[17:54]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég mótmæli þeim staðhæfingum hv. þingmanns harðlega að við hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir séum að reyna að drepa málinu á dreif með því að fara í andsvör við hv. þingmann sem er 1. flutningsmaður þingsályktunartillögunnar. Ég spurði hann einfaldlega hverju þessi rannsókn ætti að skila, hvernig hann ætlar að réttlæta það að fjármunum skattgreiðenda verði varið í það að ráðast í þessa rannsókn og hvaða afleiðingar það kunni að hafa verði niðurstaðan sú að pottur hafi verið brotinn í töku ákvörðunar um stuðning við þessa innrás eða uppbyggingu í Írak að átökum loknum.

Ég ætlast til þess að hv. þingmaður sem 1. flutningsmaður tillögunnar hafi einhverja skoðun á því hverju þessi rannsókn á að skila. Ástæðan fyrir því að ég spyr er sú að ég fæ ekki séð hvað á að koma út úr rannsókninni. Um fá mál hefur meira verið rætt í þessum sal og opinberlega en stuðning íslensku ríkisstjórnarinnar á sínum tíma. Ég fæ ekki séð hverjar afleiðingarnar eiga að vera ef niðurstaða þessarar rannsóknar verður sú að pottur hafi verið brotinn í ákvörðunartökunni. Varla varðar það við lög um ráðherraábyrgð sem liggur beinast við að líta til telji menn að ekki hafi verið staðið rétt að þessum ákvörðunum.

Það vill þó þannig til að þeir menn sem helst er hér um rætt, Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson, eru ekki lengur ráðherrar og þess vegna munu ráðherraábyrgðarlögin ekki koma til skoðunar í tengslum við þessar ákvarðanir sem voru teknar hér fyrir átta árum. Ég krefst þess (Forseti hringir.) að hv. þingmaður upplýsi um það hverju þessi rannsókn eigi að skila og hverjar afleiðingarnar eigi að vera svo ég geti sem þingmaður á þjóðþingi Íslendinga tekið afstöðu til þess máls (Forseti hringir.) sem hér er verið að ræða og hv. þingmaður er 1. flutningsmaður að.