139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

rannsóknarnefnd um aðdraganda ákvörðunar um stuðning Íslands við innrásina í Írak árið 2003.

147. mál
[17:57]
Horfa

Flm. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég gat um fór ég í stuttri framsöguræðu yfir helsta hlutverk þeirrar rannsóknarnefndar sem hér er lagt til að verði skipuð og þarf ekki að endurtaka það. Það má lesa um það í greinargerð með tillögunni á bls. 3.

Síðan segir þar, með leyfi forseta, svo ég komi að þeim þætti:

„Þegar niðurstöður rannsóknarinnar liggja fyrir ákveði Alþingi næstu skref. Flutningsmenn telja það brýnt að efla eftirlitshlutverk þingsins með framkvæmdarvaldinu og vísa í fram komnar tillögur í skýrslu nefndar um eftirlitshlutverk Alþingis sem forsætisnefnd lét vinna sl. haust.“

Ég sagði í raun og veru áðan að ég teldi sem sagt að þegar niðurstöður rannsóknarinnar liggja fyrir verði að taka afstöðu til þess hver næstu skref kunna að vera í málinu. Það er þá Alþingi sem tekur slíkar ákvarðanir. Um það getum við ekki fyllilega fullyrt á þessu stigi, til þess þurfum við að hafa niðurstöðurnar undir höndum.

Hvað varðar lögin um ráðherraábyrgð, sem hv. þingmaður vék að, er í sjálfu sér rétt hjá honum að þau verða væntanlega ekki nýtt af þessu tilefni, jafnvel þó að menn verði taldir hafa farið á svig við þau, ekki vegna þess að viðkomandi einstaklingar eru ekki lengur ráðherrar heldur vegna þess að þá tekur við fyrningarákvæði þeirra laga. Það mundi þá taka til þeirra einstaklinga sem hér um ræðir. Það er kannski ekki aðalatriði í þessu máli heldur hitt, að menn dragi fram á hvaða grunni þessi afdrifaríka ákvörðun var tekin sem ég tel að hafi verið ólögmæt og farið í bága við samþykktir Sameinuðu þjóðanna. Á hvaða grunni var sú ákvörðun tekin og hvernig var að henni staðið? Hvaða upplýsingar lágu fyrir o.s.frv.? (Forseti hringir.) Síðan taka menn afstöðu til þess í framhaldinu þegar öllu þessu hefur verið safnað saman hvort tilefni er til að hafast eitthvað frekar að. Fyrst og fremst þurfum við að gera þetta til þess (Forseti hringir.) að gera upp við þetta mál og læra til framtíðar. (BirgJ: Heyr, heyr.)