139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

382. mál
[15:32]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var sótt mjög fast að þessi 40% færu beint í uppbyggingu á þjóðgörðum og friðlýstum svæðum sem eru svo sannarlega ferðamannastaðir. Það er ekki svo að þessi 40% fari bara inn í ríkissjóð, inn í hítina, heldur er ætlunin að 60% fari í þennan sjóð, 40% fari síðan beint í uppbyggingu þjóðgarða og friðlýstra svæða.

Við getum síðan deilt um það hvort þetta eigi allt að vera í einum sjóði og friðlýstu svæðin og þjóðgarðarnir eru í þannig stöðu að án efa mundu umsóknir þeirra komast mjög einfaldlega í gegn. Þess vegna settum við inn til bráðabirgða endurskoðunarákvæði á þessum lögum þannig að við getum eftir tvö ár metið árangurinn og metið það hvernig best sé að halda áfram. En það var ákveðið að fara svona af stað og ég held að það geti orðið farsælt en við verðum að leggja á það ískalt mat þegar þessu ferli er lokið. En það er alveg klárt að þeir fjármunir sem þarna er verið að innheimta eiga allir að renna til uppbyggingar á ferðamannastöðum þó í tvennu lagi sé.