139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

Icesave og afnám gjaldeyrishafta.

[11:00]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Við yfirferð á Icesave-samningunum höfum við verið að meta áhættuna af svokölluðum efnahagslegum þáttum þeirra. Þar hefur komið fram að Ísland er að taka á sig megnið af áhættunni og hefur það lítið breyst frá fyrri samningum. Þetta þýðir með öðrum orðum að ef gengið veikist til mikilla muna kemur íslenski ríkissjóðurinn til með að borga mun hærri fjárhæðir sem nema tugum milljarða en ef gengið styrkist að einhverju marki munum við ekki njóta þess nema að litlu leyti.

Á fund nefndarinnar hafa komið nokkur greiningarfyrirtæki, m.a. IFS Greining og Gamma hf., sem hafa bent á að fyrst þetta sé veruleikinn sé ekki hægt að afnema gjaldeyrishöftin fyrr en í fyrsta lagi eftir að búið er að greiða upp höfuðstól skuldarinnar. Við erum að tala um fimm til sex ár. Nú hefur Seðlabankinn komið fram og gefið til kynna að hann ætli að leggja fram áætlun um afnám gjaldeyrishafta í febrúar. Það liggur fyrir að lögin sjálf renna út næsta haust og því langar mig til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hefur hann og ríkisstjórnin mótað stefnu um það hvenær eigi að afnema gjaldeyrishöftin? Um mikla hagsmuni er að ræða fyrir íslenskt efnahagslíf. En mér sýnist staðan því miður vera sú að verði Icesave-samningarnir samþykktir komum við til með að búa við gjaldeyrishöftin til langs tíma.