139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[12:37]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni málefnalegt innlegg hans í málið. Auðvitað eigum við að kalla til helstu sérfræðinga í þessum efnum og ráðfæra okkur við þá. Ef það er nokkuð sem ég hef hins vegar lært af þessu ferli öllu, og geri ég þá ekki lítið úr ábyrgð minni, er að við eigum að spyrja sérfræðingana af gagnrýni og vera sjálf sannfærð um að við séum að gera rétta hluti. Það hefði haft í för með sér að kosningin hefði verið tímafrekari, við hefðum ekki haft númeraða kjörseðla heldur hefði þurft að færa þá inn handvirkt. Ekki hefði verið hægt að skanna þá rafrænt eins og gert var. En framkvæmdin hefði verið öruggari. Við sjáum það eftir á en það er auðvelt að vera vitur eftir á.

Sambærileg framkvæmd hafði verið gerð í öðrum löndum þannig að við töldum að þetta væri fær leið og sérfræðingar vísuðu til þess. Þegar upp er staðið er það okkar sem berum ábyrgðina á málinu að leysa það. Það er sameiginlegt verkefni þingsins, að mínu viti, og í það eigum við að ráðast.