139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

störf þingsins.

[14:07]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég er komin hingað í ræðustól sem formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins til að skýra þingheimi frá ákvörðun laga- og mannréttindanefndar þess. Nefndin ákvað á fundi sínum í Strassborg í síðustu viku að ekki væri ástæða til þess að svo stöddu að ljúka skýrslugerð vegna frystingar breskra yfirvalda á eigum Landsbanka Íslands í Bretlandi í október 2008.

Forsaga málsins er sú að Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins óskaði eftir því við framkvæmdastjórn þingsins í janúar 2009 að laga- og mannréttindanefndin skoðaði hugsanleg álitamál í tengslum við beitingu hinna svokölluðu hryðjuverkalaga, það er, með leyfi forseta: „Anti-Terrorism, Crime and Security Act 2001“ til að frysta eignir Landsbanka Íslands í Bretlandi.

Frú forseti. Málinu var vísað til nefndarinnar til skýrslugerðar og var finnski þingmaðurinn Kimmo Sasi útnefndur skýrsluhöfundur. Nú hefur hins vegar verið tekin ákvörðun um að gefa ekki út skýrslu um málið að svo stöddu. Fyrir þeirri ákvörðun eru tvær ástæður. Í fyrsta lagi var ekki talið æskilegt að þingið tæki afstöðu sem hugsanlega yrði nýtt í dómsmálum í tengslum við fall bankans. Í öðru lagi taldi nefndin að gildissvið laganna væri nógu vítt til að beiting þeirra til að frysta eigur Landsbankans félli þar undir. Ábendingar komu fram á Evrópuráðsþinginu um að auðveldara væri fyrir þingið að láta meta efnahagslegu áhrifin af beitingu laganna fyrir Ísland en að gefa álit á því hvort réttlætanlegt hafi verið að beita þessum úrræðum og mun Íslandsdeildin skoða það mál betur.