139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

störf þingsins.

[14:17]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Mósesdóttur fyrir að fara yfir afstöðu Evrópuráðsins til spurningar okkar um beitingu hryðjuverkalaganna. Það vill svo til að á eftir stendur til að ræða þingsályktunartillögu hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar um það að Íslendingar höfði skaðabótamál vegna beitingar þessara laga. Hvet ég sem flesta til að taka þátt í þeirri umræðu.

Hv. þm. Lilja Mósesdóttir er oft ófeimin við að benda á hluti sem öðrum kann að þykja óþægilegt að viðurkenna. Hún hefur t.d. stigið fram og viðurkennt að hún hefði viljað halda öðruvísi á málum í umræðu um stjórnlagaþingið á sínum tíma. Í því fólst ekki að hv. þingmaður væri á móti stjórnlagaþingi, heldur snerist þetta um að leggja áherslu á vönduð vinnubrögð. Ég held að við eigum að læra af stjórnlagaþinginu í víðari skilningi, læra að vanda sem best til verka.

Strax að lokinni þessari umræðu hefst utandagskrárumræða um skattstefnu ríkisstjórnarinnar. Þar eru einmitt fjölmörg dæmi um hvernig lög hafa verið sett án þess að menn hafi í raun vandað til verka í samræmi við tilefnið. Hvað eftir annað hafa verið keyrðar hér í gegn skattalagabreytingar, jafnvel rétt fyrir jól og áramót, sem síðan hefur komið í ljós að standast enga skoðun, jafnvel gert ráð fyrir reiknireglum sem standast ekki stærðfræðilega.

Svo er það Icesave-málið sem kemur til umræðu á morgun. Þar eru líka fjölmörg dæmi um að menn hafi ekki tekið afstöðu til hlutanna út frá rökum og staðreyndum heldur einhverju allt öðru. Við á þinginu eigum í öllum þessum málum og öðrum að temja okkur að forðast það fúsk sem hefur verið allt of ríkjandi í lagasetningu.