139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

málshöfðun á hendur breska ríkinu fyrir alþjóðlegum dómstól vegna beitingar hryðjuverkalaga.

227. mál
[17:42]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Hjá þessari skrautlegu ríkisstjórn grípa menn oft og tíðum til dýralíkinga. Ég held að það sé ekki úr vegi að segja að hæstv. utanríkisráðherra sé háll sem áll. Hann er líka oft býsna mikill refur. Fyrir vikið er ekki alltaf alveg að marka málflutning hæstv. ráðherra. Menn þurfa með öðrum orðum að taka hann með þeim fyrirvara að um „ál“ eða „ref“ sé að ræða eftir því hvernig á það er litið.

Ég vil þó byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir að taka undir margt sem kemur fram í þingsályktunartillögunni sem hér er til umræðu. Hins vegar varði hann megninu af ræðutíma sínum í að halda því fram að það hefði legið fyrir fyrir margt löngu að Íslendingar hefðu enga stöðu til að fara í mál hvað þetta allt saman varðar. Þetta er einfaldlega alrangt. Það get ég fullyrt vegna þess að þetta er akkúrat málið sem varð til þess að ég fór að skipta mér af pólitík. Ég hugsa að það séu fá mál sem ég hef sett mig jafnítarlega inn í dag eftir dag og viku eftir viku. Ég skoðaði allt sem viðkom þessu máli, ekki hvað síst lagalega stöðu Íslands og gagnrýndi töluvert á sínum tíma hvernig ríkisstjórnin túlkaði þau álit sem hún fékk, hvaðan hún fékk þau og hver tilgangurinn hefði verið — tilgangur eins og kom fram í greinum á mbl.is, að ljúka þessum ágreiningi til að hefja efnahagslega endurreisn, og kemur heim og saman við það sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson benti á áðan. Það var einmitt ástæðan fyrir ákvörðuninni.

Ég ræddi þetta mál meira að segja við mann sem nú er ráðherra í ríkisstjórn Íslands en var þá óbreyttur þingmaður Samfylkingarinnar. Hann bað mig og aðra sem vorum að skipta okkur af þessu að vera fyrir alla muni ekki að blanda saman Icesave-deilunni og deilunni um hryðjuverkalögin — ég tek fram að það var ekki hæstv. utanríkisráðherra — vegna þess að það þyrfti að klára þessa hryðjuverkalagadeilu, (Forseti hringir.) eins og menn lentu (Forseti hringir.) síðar í með Icesave-málið, til þess að þurfa ekki að hugsa (Forseti hringir.) um þetta mál meira.