139. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2011.

framkvæmd skólalöggjafarinnar frá 2008.

[17:01]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Rætt hefur verið um stefnu til framtíðar og annað, og eðlilega þá löggjöf sem hér var samþykkt. Það sem mig langar að nefna er í rauninni það sem hv. þm. Skúli Helgason nefndi sem er í sjálfu sér gæði menntunar og þeirrar þjónustu sem við bjóðum upp á. Ég tek undir með hv. þingmanni að við hljótum að vera komin að þolmörkum í því hvernig við rekum skólakerfi okkar á mjög litlum fjármunum, ef orða má það svo. Við hljótum líka að velta því fyrir okkur hvort sá niðurskurður eða frekari niðurskurður muni þýða lakara skólastarf og þá lakari nemendur eða lægra menntunarstig þjóðarinnar ef við höldum svona áfram.

Ég held því að hægt sé að taka undir þau orð sem hv. þingmaður hafði hér uppi, að samþætta mennta- og atvinnustefnu. Það held ég að hljóti að vera mjög mikilvægt þannig að við séum samstiga. Ég hef um tíma velt fyrir mér því ferli — ég skal viðurkenna það, frú forseti, að ég hef ekki neina sérstaka lausn á því — að greiða skólum eftir fjölda útskrifaðra, ef ég skil það rétt, og hvort það sé innbyggður hvati í kerfinu ef skorið er niður inn að beini að útskrifa jafnvel og sleppa í gegn nemendum sem ekki eru jafngóðir og við viljum helst sjá fara úr skólunum. Er þetta öfugur hvati? Ég vil bara velta því upp. Ég hef í sjálfu sér ekkert fyrir mér í því annað en áhyggjur.

Við þetta bætist 40% brottfall, eða nálægt því, sem hér var nefnt. Við hljótum því að vera reiðubúin, eins og kom fram í fyrri ræðu minni, að endurmeta allt þetta kerfi til að ná sem bestum árangri. Við getum ekki sætt okkur við að standa öðrum þjóðum að baki í þessum málum.