139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

orð þingmanns í umræðu um störf þingsins.

[14:45]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Af því að nefnd var íslensk stjórnmálasaga er rétt að rifja nokkuð upp fyrir þá sem hana þekkja ekki. Þeir stjórnmálamenn sem hér hafa setið og hafa gengið …

(Forseti (ÁRJ): Um fundarstjórn forseta.)

… harðast fram í því að krefjast afsagnar ráðherra þegar þeir hafa misstigið sig eru einmitt hæstv. núverandi forsætisráðherra og hæstv. núverandi fjármálaráðherra. Í ljósi þess finnst mér dálítið merkilegt að sjá hversu órólegir stjórnarliðar verða þegar þess er krafist að núverandi hæstv. umhverfisráðherra segi af sér.

Varðandi fundarstjórnina, hæstv. forseti, vil ég segja það að ég tel að hæstv. forseti verði að taka stjórnarliðana á beinið vegna þess að mér finnst þeir komast allt of langt í því að tala með niðrandi hætti um fjarstatt fólk sem getur ekki varið sig, fólk í sveitarstjórnum, (Forseti hringir.) fólk hjá ríkisfyrirtækjum sem hér er sakað um að hafa komið fram með mútur eða þegið mútur. (Forseti hringir.) Það er ekki þinginu samboðið að þannig sé gengið um þennan (Forseti hringir.) ræðustól.