139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[17:26]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að umræðan um skýrsluna sem fjárlaganefnd fékk sem drög frá Seðlabankanum setti mig aðeins út af laginu og það að Seðlabankinn og þessar stofnanir væru virkilega enn að klóra sig fram úr því hvað þjóðarbúið skuldaði í raun. Ef enn er mikil óvissa um það, hvernig í ósköpunum geta menn þá komið með samning sem þennan og ætlast til að við bætum honum á þjóðina til framtíðar án þess að hafa hugmynd um hver staðan er?

Ef ég skildi hv. þm. Þór Saari rétt er verið að beita nýjum aðferðum við að finna út skuldir þjóðarbúsins. Maður spyr sig: Hugnaðist þeim sem vinna þetta ekki gömlu aðferðirnar, eða mældu þær ekki rétt? Við hljótum að spyrja okkur að því. Þetta er eins og annað varðandi Icesave-málið, það er alltaf eitthvað nýtt sem kemur upp eftir því sem á líður. Nú upplýsist það að fjárlaganefnd hafi verið fram á morgun að lesa þessa skýrslu og kynna sér hana, daginn eða nóttina áður en við tökum málið til lokaumræðu. Það er mjög sérstakt, ég verð að segja það.

Mig langar að spyrja hv. þingmann varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Nú er þetta mál komið til þingsins í þriðja sinn. Það eru tugir þúsunda þegar búnir að skora á þingið og forsetann að sjá til þess að málið fari til þjóðarinnar í atkvæðagreiðslu; kjósum.is er sú vefsíða sem fólk er hvatt til að fara inn á til að skrifa undir áskorunina. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála mér um að það sé eðlilegra að þingið takið þá ákvörðun að vísa þessu til þjóðarinnar í stað þess að setja forsetann í þá stöðu að þurfa að gera það (Forseti hringir.) því að hann hlýtur að verða við því eins og áður. (Forseti hringir.)