139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[18:59]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu þar sem hann rökstuddi mál sitt ágætlega, en eins og gefur að skilja er ég ósammála mörgu sem þar kom fram. Hann minntist sérstaklega á beiðni um aðila og sérfræðinga sem væru fengnir á fund nefndarinnar. Ég áttaði mig ekki alveg á um hvað þingmaðurinn var að tala en vil þó segja að jafnvel þó að slíkt skjal hafi komið fram frá hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni og ég hafi samþykkt það, reyndar lagði ég fram aðrar og meiri tillögur í kjölfarið, þýðir það ekki að við getum ekki óskað eftir frekara mati, sérstaklega í ljósi þess þegar greining á vandanum liggur ekki nægilega vel fyrir að mínu mati. Ég lýsti því yfir vonbrigðum með það að sjálfstæðismenn skyldu ekki aðstoða mig við að ná því fram vegna þess að samvinnan hafði hingað til verið virkilega góð.

Mig langar að velta upp spurningu í ljósi þess að hv. þingmaður lýsti í mörgum orðum að allir þingflokkar hefðu átt aðild að samkomulaginu. Nú hafa aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins komið fram og lýst þeirri skoðun sinni að þar með töldu þeir sig bundna af því sem kæmi út. Ég hef reyndar litið það öðrum augum. Ég taldi að jafnvel þó að við hefðum skipað okkar aðila í samninganefndina hefðum við ekki verið að gefa eftir skoðanir okkar í málinu, ekkert frekar en að við þurfum að vera sammála öllu sem kemur frá Seðlabankanum, þó að við samþykkjum mál. En við lok þeirrar sáttar sem náðist að einhverju leyti hér haustið 2009 og Sjálfstæðisflokkurinn tók þátt í, velti ég fyrir mér: (Forseti hringir.) Af hverju endaði Sjálfstæðisflokkurinn á gula takkanum í þeim samningaviðræðum í ljósi þess að hann átti fulla aðild að þeim?