139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[21:44]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er sannarlega þannig og óþarfi að þræta um staðreyndir að lánafyrirgreiðsla er okkur ekki tiltæk með fullnægjandi hætti meðan þetta mál er óklárað. Það er mikilvægur þáttur í efnahagslegri endurreisn.

Það er alveg rétt afstaða út af fyrir sig að menn vilji ekki semja um þetta mál en ég spyr þá: Hvers vegna voru fulltrúar Framsóknarflokksins í samstarfi (Gripið fram í.) allra flokka um samninga? Hvaða niðurstaða hefði verið nógu góð ef sú niðurstaða sem er fengin og formaður samninganefndarinnar, sérstakur fulltrúi stjórnarandstöðunnar í nefndinni, alþjóðlegur á sínu sviði og virtur (Gripið fram í.) á sínu sviði, telur að sé það lengsta sem hægt var að komast og telur mjög góða niðurstöðu? Ég verð að segja eins og er að ég held að hv. þingmaður hafi óraunsæjar væntingar til niðurstöðu samninga í þessu máli (Gripið fram í.) og þá meinar hann ekkert með því að vilja fara samningaleiðina.