139. löggjafarþing — 73. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[15:18]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Ég hef ekki og vil ekki fara fyrir dómstóla með þetta mál, ég tel að það feli í sér of mikla áhættu fyrir íslenskt þjóðfélag. Ég tel að samningurinn sem við greiðum hér atkvæði um sé margfalt betri en aðrir Icesave-samningar sem við höfum greitt atkvæði um í þessum þingsal. Af þeim tveimur ástæðum hef ég ákveðið að leggja ekki stein í götu þessa samkomulags og birti þá afstöðu mína með því að greiða ekki atkvæði, ég er sem sagt ekki á móti þessari niðurstöðu.

Að því sögðu vil ég líka segja eitt: Icesave-málið birtist þjóðinni sem mikið deilumál. En ég held að við megum ekki missa sjónar á því að það er þó eitt sem sameinar okkur í því. Það er enginn hér inni sem hefur sérstaklega gaman af þessu máli. Það líta allir á það sem skítamál, sem leiðindamál. Enginn vill að þessar byrðar lendi á þjóðinni. Það sameiginlega viðhorf til málsins eigum við að nýta okkur sem kraft í framhaldinu og leggjast öll á eitt við að nýta öll þau efnahagslegu tól sem við höfum, og öll þau tækifæri sem þó felast í þessum samningi, (Forseti hringir.) til að koma í veg fyrir, með tímann að vopni, að byrðarnar lendi á almenningi.