139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[18:09]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Skemmst er frá því að segja að ég er ekki sammála efnisinntaki þessarar þingsályktunartillögu. Mér finnst hins vegar sjálfsagt að ræða hana og um hana verður fjallað í utanríkismálanefnd eins og nefnt hefur verið á undan.

Ég er ekki sammála því sem haldið er fram að ekki sé skýrt umboð frá Alþingi fyrir því að hafa lagt þessa umsókn inn og vera í þeim samningaviðræðum sem standa yfir. Það var samþykkt af Alþingi. Hér stendur, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktaði 16. júlí 2009 að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Atkvæði féllu þannig að 33 þingmenn sögðu já og 28 nei.“

Í mínum huga er þetta alveg skýrt umboð.

Ég vil líka gera smáathugasemd við það sem hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir sagði áðan um breiða samstöðu í meiri háttar utanríkismálum. Það er alveg rétt að reynt hefur verið að ná breiðri samstöðu í meiri háttar utanríkismálum. Ég átta mig ekki alveg á hvað hv. þingmaður á við með breiðri samstöðu, en hitt er annað mál að væntanlega hafa ekki um nein mál hér á Alþingi staðið jafnmiklar og heitar deilur og um utanríkismál. Þannig að ég held að við ættum að fara varlega í að alhæfa að þessu leyti.

Fólk vitnar gjarnan til þess að andstaða hafi verið við aðild í þjóðfélaginu og skoðanakannanir hafi sýnt lítinn stuðning við umsókn að Evrópusambandinu. Ég er út af fyrir sig ekki mikið fyrir að hlaupa á eftir skoðanakönnunum en af því að málshefjendur gera það tel ég rétt að benda á að mikill meiri hluti þjóðarinnar vill að þessum aðildarviðræðum verði haldið áfram. Mér finnst að fólk ætti þá að vera sjálfu sér samkvæmt í því.

Í greinargerðinni er fjallað töluvert um að því hafi verið haldið fram, þegar umsóknin var lögð fram, að hér kæmist á efnahagslegur stöðugleiki með evrunni og síðan er bent á að það hafi nú alls ekki átt sér stað í Evrópuríkjum, t.d. í Grikklandi, á Spáni og í Portúgal, þar sem efnahagsörðugleikar séu miklir þrátt fyrir að þau séu með evruna. Ef fjármálastjórnin er í ólestri verður enginn efnahagsstöðugleiki og það sama mun eiga við á Íslandi ef við tökum evruna einhvern tímann upp. Ef fjármálastjórn er öll í ólestri næst hér ekki efnahagslegur stöðugleiki.

Ég vil hins vegar líka benda á að við búum nú við gjaldeyrishöft og þurfum í framtíðinni að afnema þau. Ég sé það sem hina einu raunhæfu stefnu sem lögð hefur verið fram í peningamálum. Til þess að geta komist út úr krónunni, vegna þess að hún flýtur ekki af sjálfu sér, hún gerir það ekki, verður það einmitt með því að við náum samningum við Evrópusambandið og komumst þar inn og fáum stuðning frá þeim ríkjum til að komast inn í evruna. Það er alveg hárrétt hjá hv. flutningsmanni tillögunnar. Unni Brá Konráðsdóttur, að það mun taka tíma og gerist ekki á einum degi.

Ýmislegt sem fram kemur í þessari greinargerð er varhugavert, finnst mér. Ég vil taka eitt dæmi þar sem segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur komið þeirri skoðun á framfæri að eina leiðin til þess að ná einhverjum tökum á smáríkjum sem stýra efnahagsmálum sínum á annan hátt en Þjóðverjar vilja sé að herða reglurnar og breyta sáttmálum Evrópusambandsins þannig að stóru þjóðirnar fái sterkari heimildir til þess að grípa inn í efnahagslíf einstakra aðildarríkja.“

Ég skal svo sem ekki um það segja hvort þetta er nákvæmlega rétt þýtt, en það að ein manneskja, jafnvel þó það sé forustumaður í hinu stóra ríki Þýskalandi, leggi það fram eiga aðildarþjóðirnar eftir að samþykkja slíkt. Eftir því sem ég hef fylgst með þessum þjóðum held ég að þess verði langt að bíða að það verði samþykkt að Evrópusambandið geti gripið inn í fjármál einstakra ríkja. Á hinn bóginn getur það vel komið til að fjárlög aðildarríkjanna verði rædd á einhverjum sameiginlegum fundum. En það er allt annað að ræða saman en grípa inn í. Mér finnst sleggjudómar af þessu tagi fylgja þeim málflutningi að draga okkur út úr þessum viðræðum.

Ég segi bara, eins og flutningsmenn gera: Mér finnst við ættum öll að halda okkur við staðreyndir. Þau kvarta nefnilega yfir því að menn haldi sig ekki við staðreyndir í málflutningi sínum.

Þau segja síðan að Evrópusambandið hafi ákveðið regluverk og það sé ekki neinum vafa undirorpið, og það er náttúrlega þess vegna sem samningaviðræður fara fram. Ef ekki væri hægt að semja um hvernig menn taka reglurnar upp þá þyrfti engar samningaviðræður. Þá yrðu menn bara að taka þetta upp og gleypa allt í einum bita. Það er einmitt ekki það sem þarf að gera heldur er hægt að semja sig að þeim reglum sem ríkja innan bandalagsins.