139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[18:00]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Við ræðum hér þingsályktunartillögu um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Þann 16. júlí 2009 sögðu 33 þingmenn já við því að fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið og 28 sögðu nei. Það getur stundum verið fúlt að vera þeim megin sem nei-in eru en vilja gjarnan vera þeim megin sem já-in eru. Þetta voru lýðræðislega kjörnir fulltrúar á Alþingi sem samþykktu að fara í þessa vegferð.

Nú hafa þrír af þeim sem sögðu nei ákveðið að koma fram með þingsályktunartillögu um að draga til baka þá ákvörðun lýðræðislega kjörinna fulltrúa á Alþingi að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið. Sömu aðilar tala hér sýknt og heilagt um lýðræðið en lýðræði er að samþykkt var tillaga á Alþingi og nú leggja þeir sem urðu undir í þeirri atkvæðagreiðslu fram tillögu um að draga til baka þá tillögu sem samþykkt var. Gott og vel. Tillagan er komin fram og hún mun væntanlega fara í það ferli sem þingsályktunartillögur fara.

Mig langar að gera athugasemdir við ýmislegt í greinargerð tillögunnar sem að mínu mati stenst lítt eða ekki skoðun. Í fyrsta lagi stendur þar að umsókn um aðild að Evrópusambandinu gerbreyti áherslum Íslands í utanríkismálum. Þetta er fullyrðing, frú forseti, sem að mínu mati er algjörlega röng. Ef við horfum á utanríkisstefnu Íslands og þegar við höfum gengið í ríkjasambönd eða tekið upp samninga allt frá 1949 þegar við gengum í NATO, síðan í EFTA, tókum upp EES-samninginn og síðan Schengen þá er það að taka þátt í aðildarviðræðum við Evrópusambandið í beinum takti við utanríkismálastefnu Íslands fram til þessa. Það sem er öðruvísi nú er að Sjálfstæðisflokkurinn sem hefur oftar en ekki verið í forustu í utanríkismálum er það ekki í þessu máli, að mínu mati því miður.

Síðan er jafnframt sagt að stjórnvöld verði að hafa skýrt umboð. Þingið felldi það að fara í þjóðaratkvæði og spyrja þjóðina hvort fara ætti í aðildarviðræður áður en ákvörðun væri tekin um aðildarviðræður. Alþingi Íslendinga, lýðræðislega kjörnir fulltrúar felldu slíkar tillögur í tvígang. Stjórnvöld hafa því skýrt umboð Alþingis til að fara í þessar viðræður.

Hér segir einnig að Samtök atvinnulífsins hafi ekki treyst sér til að taka afstöðu til aðildar. En ég minni á að æðimargir innan Samtaka atvinnulífsins hafa svo sannarlega tekið undir það að aðildarviðræður við Evrópusambandið séu skynsamlegar og þeim eigi að halda áfram. Oftar en ekki í því ferli er bæði minnst á efnahagslega og viðskiptalega þætti og kannski ekki síst gjaldmiðilinn og þá peningastefnu sem hér hefur ríkt sem stuðning við það að halda aðildarviðræðum áfram.

Hér segir líka, sem er eiginlega dálítið skondið og jafnvel kannski svolítið skemmtilegt:

„Þegar tilkynnt er af hálfu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að mælt sé með því að hafnar verði viðræður, þá brjótast yfirleitt út fagnaðarlæti á götum úti en sú var ekki raunin hér á landi.“

Virðulegur forseti og ágætu flutningsmenn. Það er bara menningarlegur munur á Íslendingum og Evrópuþjóðum og sérstaklega þjóðum Suður-Evrópu hvað slíkt varðar. Við erum ekki vön að rjúka út á torg til að fagna einu eða neinu, við rjúkum frekar út á torg til að mótmæla einhverju.

Hér er svo rætt um að utanríkisráðuneytið vilji ekki og hafi verið tregt til að gefa upp raunverulegan kostnað við aðildarferlið o.s.frv. Ég get tekið undir það með hv. flutningsmönnum að mér finnst einsýnt að Alþingi eigi í það minnsta og þjóðin öll að vera upplýst um þann kostnað sem verið er að fara í. En ég vil jafnframt samhliða þessu benda á að í rannsóknarskýrslu Alþingis og í skýrslu þingmannanefndarinnar er sérstök áhersla lögð á að við þyrftum og ættum að styrkja stjórnsýslu okkar. Ég held, hvort heldur verður að Ísland gangi í Evrópusambandið eða ekki, að þessar aðildarviðræður, og menn geta kallað það aðlögunarferli, séu kjörin leið fyrir okkur Íslendinga til að koma ákveðnu skikki á stjórnsýsluna, til að vanda betur vinnubrögð og styrkja stjórnsýsluna. Við eigum ekki að vera feimin við að nýta okkur þetta ferli til þess.

Í greinargerðinni er líka rætt um að aðild að Evrópusambandinu sé ekki lausn á efnahagsvanda Íslands. Ég tek heils hugar undir það. Helsta lausn á efnahagsvanda Íslands væri sú að núverandi ríkisstjórn færi frá. Aldrei hefur nokkrum aðildarsinna dottið í hug að segja að Evrópusambandið sé lausn á efnahagsvanda þjóðarinnar. En hins vegar í efnahagserfiðleikum í álfunni almennt og þegar talað er um að stuðningsmenn aðildar Íslands að Evrópusambandinu hafi haldið því fram að eina leiðin til að tryggja efnahagslegan stöðugleika sé að ganga í sambandið og taka upp evru þá ræða menn um þann óstöðugleika sem ríkt hefur í Grikklandi, á Ítalíu, Spáni og Portúgal. Ég vil biðja menn að huga að því, ekki það að ég sé hrædd við að evran hrynji, ég bið menn um að velta fyrir sér hvaða áhrif það hefði á stöðu Íslands per se ef evran hryndi. Þess vegna finnst mér að menn eigi að tala varlega í þessum efnum. Þjóðir Evrópusambandsins sem hafa tekið upp evruna þurfa að standa vörð um hana og gæta hennar, hún hnígur og rís eins og hver annar gjaldmiðill, en ég segi að bregðist evran verður e.t.v. verra og meira hrun á Íslandi en af mörgu öðru vegna útflutningsafurða okkar sem bundnar eru í evrum. Ég treysti mér ekki til að segja hvort það ríki agaleysi í hagstjórn á ESB-svæðinu, ég er ekki nægjanlega kunnug öllu því svæði til að geta komið með slíka fullyrðingu, en ég leyfi mér að draga í efa að svo sé.

Menn segja líka hér að fullveldisafsal blasi við aðildarþjóðum Evrópusambandsins vegna þess að menn séu að velta fyrir sér frekari samruna og ljóst væri þá að Ísland sem aðildarríki að sambandinu mundi litlu sem engu ráða um eigin málefni, hvorki hvað varðar fjárlagagerð né efnahagsmál almennt og að slík framtíðarsýn sé ekki það sem íslenska þjóðin þurfi á að halda. Þetta er dæmalaus málflutningur í þessari greinargerð. Það eina, frú forseti, sem hægt er að segja um akkúrat þessa málsgrein er: Þetta er tómt bull, því miður. Menn verða stundum að gæta sín þó að þeir séu á móti einhverju að fara ekki offari í skýringum sínum til þess að styðja við málflutning sinn.

Síðan geta menn velt því fyrir sér hvort fullveldi þjóða almennt sem hafa gengið í Evrópusambandið sé skert eða ekki skert eða að menn afsali sér fullveldi. Ég held í fyrsta lagi að menn túlki ekki allir orðið „fullveldi“ á einn hátt. Í öðru lagi er það skoðun mín að með því að vera aðili að EES-samningnum þurfum við æðioft að afsala okkur fullveldi vegna þess að við verðum að taka hér upp reglugerðir og tillögur án þess að hafa nokkurn tíma komið að borðinu við að móta þær tillögur eða reglugerðir. Ég tel að þó að Ísland sé lítið ríki og miðað við þær reglur sem gilda, hvort heldur er í ráðherraráðinu eða annars staðar, þá er það meiri hlutinn sem ræður, eins og stundum er sagt, en það hefur engin ákvörðun verið tekin án samþykkis allra aðildarríkja.

Ég vil líka benda á eins og hér stendur:

„Það er slæmt fyrir orðspor Íslands á alþjóðavettvangi að halda áfram aðildarferlinu þegar bersýnilegt er að hugur fylgir ekki máli.“

Mér finnst hv. tillögumenn (Forseti hringir.) fullyrða hér æðimikið sem þeir geta í það minnsta ekki staðið við hvað mig varðar.