139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[18:29]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Til umræðu er tillaga til þingsályktunar um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. 1. flutningsmaður er hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir. Ég ætla að fjalla um tillöguna sem slíka en um leið undirstrika ég að ég vil gera orð hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur að mínum þegar hún fór mjög skilmerkilega yfir ákveðin atriði í greinargerð þingsályktunartillögunnar. Tillagan snýst sem sagt um að draga umsóknina til baka, umsókn sem var samþykkt hér í þingsal af lýðræðislega kjörnu þingi þótt sumir vilji meina að ákveðnir þingmenn séu ekki þingmenn þjóðarinnar en aðrir telji sig eingöngu vera þingmenn þjóðarinnar. Við erum öll kjörin af þjóðinni og höfum öll sama atkvæðisrétt hérna inni. Tekin var lýðræðisleg ákvörðun um að fara í þetta umsóknarferli.

Við getum rifjað upp tillögu okkar sjálfstæðismanna. Ég er enn algjörlega sannfærð um að við hefðum frá byrjun átt að hafa þjóðina með í för. Samfylkingin vildi ekki fallast á það og þess vegna var ekki tekið það gæfuspor að mínu mati sem hefði verið að láta þjóðina kjósa um málið frá byrjun. Þeirri tillögu var lýðræðislega hafnað hér í þinginu og ferlið var síðan hafið á grundvelli þeirrar tilhögunar sem lá þá fyrir. Menn verða að virða það. Menn verða að virða þá lýðræðislegu niðurstöðu sem tekin var á þingi.

Ferli er farið af stað. Að hlusta á umræðu og ræðu sumra þingmanna hér í dag, um að málið sé með allt öðrum hætti en upphaflega var lagt af stað með, finnst mér einkennast af yfirklóri, ég ætla ekki að tala um ofsóknarbrjálæði. Mér finnst þetta vera yfirklór einstaklinga sem færi betur á að segja bara hreint út: Við viljum ekkert þangað inn, við munum nota allar röksemdir til að gera málið tortryggilegt og gera allt sem við getum til að draga umsóknina til baka.

Ég hef unnið að því í stjórnmálum og reynt m.a. fyrir hönd flokks míns að auka val á hvaða málefnasviði sem er, auka val fólks innan menntakerfisins, ég vil sjá aukið val innan heilbrigðiskerfisins, bæði í rekstri og þjónustu, og þannig er lengi hægt að telja upp. Það sama vil ég gera í þessu máli. Ég vil að við höldum áfram þessu ferli af því ég vil ekki að þingið taki valið af þjóðinni. Ég vil ekki að þingið stoppi þetta ferli og taki valmöguleikann frá okkur til lengri tíma. Ég vil líka geta horft, eins og margir hafa talað um, framan í börnin mín og sagt: Já, ég veitti ykkur val, eftir lýðræðislegt ferli kaus þjóðin.

Hvað þurfum við að gera? Hér hafa oft verið samþykktar ályktanir sem maður hefur ekki sætt sig við en hefur engu að síður þurft að vinna eftir. Mér finnst núna, eftir ákall um samstöðu og samstarfsvilja þeirra ólíku stjórnmálaafla sem hér eru, það eitt eiga að sameina okkur öll að styðja við bakið á samninganefndinni sem er farin af stað. Við eigum að sameinast um það hversu ósammála sem við erum og ósátt við þetta „batterí“ sem sumir vilja kalla Evrópusambandið. Við eigum að sameinast um að ná sem hagstæðustum samningi fyrir Ísland. Þannig getum við undirbúið og undirbyggt val þjóðarinnar svo að hún geti með vissu vitað að allir stjórnmálamenn á þingi óháð flokkum hafi stuðlað að því að hún stæði frammi fyrir raunverulegu vali til lengri tíma litið og að ekki hafi verið kastað til höndum af því að menn voru í pólitískum hráskinnaleik. Niðurstaðan liggur fyrir og við eigum að mínu mati að halda áfram með það aðildarumsóknarferli sem hafið er og veita samninganefndinni tvímælalausan stuðning í þá veru.

Ég talaði um yfirklór þeirra sem segja að við eigum að draga umsóknina til baka af því að ferlið sé búið að breytast svo svakalega. Að mínu mati hefur það ekki breyst. Ferlið er farið af stað eins og ég bjóst við en ég sat í utanríkismálanefnd á sínum tíma. Ég vil þó undirstrika að ég kýs að gagnrýna til að mynda hæstv. utanríkisráðherra af því að ferlið mætti vera enn þá gagnsærra. Ég óska eftir því að þingið og hv. utanríkismálanefnd afgreiði það plan sem átti að liggja fyrir varðandi upplýsingar og fleira til að tryggja aðgang alls almennings að því hvernig ferlið gengi fyrir sig. Það er unnið að því, ég veit það. Ég geri ráð fyrir að menn fylgist með, tækin eru til staðar til þess að hjálpa til við það.

Þegar ég tala um yfirklór vil ég líka meina að í hugum sumra sé aldrei rétti tíminn. Ég hef talað um það áður. Fyrir suma er aldrei rétti tíminn til að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Þannig er það bara. (Gripið fram í.) Ég hef sagt það, eins og fyrir suma er aldrei rétti tíminn til að lækka skatta, sama hvað gengur á í samfélaginu er aldrei rétti tíminn til að lækka skatta. Þetta þekkjum við svo vel, eins þegar við tölum um að virkja einkaframtakið, hvort sem er í velferðarmálum eða menntamálum, eins og við fjölluðum um hér fyrr í dag.

Hvað er það sem þvælist fyrir og er auðvelt að gera tortryggilegt í málinu? Það er hægt að gera ákveðna hluti tortryggilega. Það eru þeir þættir sem snúa að sjálfri ríkisstjórninni. Við vitum að stjórnarsáttmálinn gengur út á þetta. Í gegnum tíðina hafa samstarfsríkisstjórnir og samstarfsflokkar í stjórn þurft að slá af kröfum sínum. Það er alveg ljóst að Vinstri grænir gerðu það og þeir vissu að ef þeir ætluðu að fara í ríkisstjórn með Samfylkingu yrðu þeir að ganga að þessari kröfu Samfylkingarinnar. Þetta var meginkrafa Samfylkingarinnar. Menn verða einfaldlega að fylgja því sem kemur fram í stjórnarsáttmálanum.

Þegar maður les fyrirsagnir eins og þær sem hafa birst á umliðnum dögum í Fréttablaðinu veltir maður fyrir sér: Mun það hafa einhverja þýðingu fyrir samninganefndina ef hún fer út og fær allar sínar kröfur samþykktar? Allar, hverja einustu. Mun það hafa einhverja þýðingu fyrir samninganefndina því að þegar hún kemur heim mun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ávallt stoppa málið? Því veltir maður fyrir sér hvort það sé nægilega sterk og mikil pólitísk forusta til að halda áfram með málið.

Ég hef sagt það áður og segi enn að við tækjum valmöguleikann frá fólkinu, þjóðinni, ef við stoppuðum ferlið nú. Við værum líka að sýna fram á ótrúlega mikinn hringlandahátt í íslenskri utanríkispólitík. Ég vil meina að aðildarumsóknarferlið varðandi ESB sé í beinu samhengi við þá utanríkisstefnu sem við höfum rekið í gegnum árin. Ég get vel skilið að vinstri grænir, m.a. hv. þm. Ásmundur Einar Daðason, séu fylgjandi því að draga umsóknina strax til baka. Ég hef ákveðna fyrirvara, og hef alltaf haft, á sjávarútvegsmálum Evrópusambandsins. Ég bind vonir við að það verði stefnubreyting hjá Evrópusambandinu. Ég vil einfaldlega að menn láti á það reyna. Ég bind vonir við að Evrópusambandið breyti sjávarútvegsstefnu sinni í áttina að þeirri sem hér er. Það eru mínir stærstu fyrirvarar varðandi Evrópusambandið.

Ég skil ekki að menn geti verið á móti því að klára ferli sem snýst um aðild að sambandi sem hefur fram til þessa snúist um frið, frið í Evrópu, og ekki síður opið markaðsdrifið hagkerfi. Út frá hugmyndafræðinni er mjög erfitt að vera á móti því sem eykur frelsi á öllum sviðum. Ég tel að við eigum frekar að líta á það sem meginskyldu okkar að stuðla að því að samninganefndin fái þann stuðning sem hún þarf á að halda til að þjóðin geti þegar þar að kemur haft fullvissu um að við höfum öll lagt okkar lóð á vogarskálarnar óháð skoðunum á Evrópusambandinu til að ná sem bestum samningi til að þjóðin geti valið úr því besta.