139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[18:39]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir kraftmikla ræðu. Hér fyrr í dag talaði flokksbróðir hennar, hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, og einnig flokkssystir, hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, og bæði fjölluðu þau um eða hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir tók undir það með Einari K. Guðfinnssyni að hér væri aðlögunarferli í gangi. Þetta var rakið mjög vel í ræðu hv. þingmanns þar sem hann fór yfir hvernig það blasti við honum hvað snertir sjávarútveg og landbúnað og því sem er að gerast í þeim málaflokkum.

Ég spyr hv. þingmann hvort hún sé ekki sammála þessu, hvort hún sé sammála þessum tveimur flokkssystkinum sínum og reyndar fleirum sem hafa talað hér.

Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sagði að í ljósi þess hvernig ferlið væri uppbyggt væri ekki hægt að kalla það lýðræðislegt, það væri hægt að tala um mjög ólýðræðislegt ferli þegar gerðar væru kröfur með þessum hætti og mjög óeðlilegt væri að fjalla um það sem lýðræðislegt ferli. Hv. þingmaður sagði að hann væri sammála landsfundarsamþykkt Sjálfstæðisflokksins um að draga umsóknina til baka vegna þess hve ólýðræðislegt ferlið væri og að það ætti ekkert skylt við opið lýðræðislegt ferli sem lyki með (Forseti hringir.) þjóðaratkvæðagreiðslu.