139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

ferðamálaáætlun 2011--2020.

467. mál
[18:16]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það er gríðarlegur vaxtarbroddur í íslensku atvinnulífi. Ef okkur tekst að gera ferðaþjónustuna að heilsársatvinnugrein held ég að við verðum með öflugan atvinnuveg. Ferðaþjónustan er mjög öflug. Þetta er hágæðaþjónustugrein og við erum að vinna í því að styrkja hana enn frekar og gera hana þannig úr garði að fleiri geti sótt í greinina sem aðalstarf.

Það er alveg rétt að mikil ábyrgð fylgir allri þeirri fjölgun á ferðamönnum sem hefur orðið hér og menn gera ráð fyrir að verði áfram. Ég tel að við ættum að horfa enn frekar, eins og gert er í þessari ferðamálaáætlun, til gæða og öryggis ferðaþjónustunnar. Þá skiptir máli að við getum boðið upp á vöru til að laða ferðamenn hingað. Við þurfum að búa til nýjar vörur, nýjar vörutegundir þannig að það sé fleira sem dragi ferðamenn hingað en hefur verið fram til þessa. Vandi okkar er sá að margt af því sem hefur helsta aðdráttaraflið hér á landi er fullbókað, má segja, yfir háannatímann og við þurfum því að dreifa ferðamönnunum betur.

Af því að hv. þingmaður talaði um Eyjafjörð sé ég t.d. gríðarleg tækifæri þar í vetrarferðamennsku. Áður en menn fara að tala um flugvöllinn og hvernig við nýtum hann tel ég að við eigum að búa til vöruna, búa til aðdráttaraflið. Það er akkúrat það sem við vinnum að núna í samstarfi við ferðaþjónustuna, þ.e. öflug vöruþróun á sviði vetrarferðamennsku. Svæðið fyrir norðan kom sterkt inn í þeirri umræðu vegna þess einfaldlega sem það hefur upp á að bjóða og tækifæranna sem þar eru til að búa til akkúrat þá vöru sem getur dregið ferðamenn hingað til lands og norður yfir vetrartímann.