139. löggjafarþing — 78. fundur,  24. feb. 2011.

atvinnu- og byggðamál á Vestfjörðum.

[10:47]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin. Ég tel mjög brýnt að hraða þessari vinnu og vinna í góðri samvinnu við heimamenn sem byggt hafa upp mikla þekkingu og þekkingarnet á ýmsum sviðum á Vestfjörðum, í atvinnumálum og menntamálum. Á Vestfjörðum eru mikil verðmæti falin í mannauði, þekkingu og náttúruauðlindum svæðisins þar sem gjöful fiskimið eru fyrir bæjardyrum svæðisins. Það er því mikilvægt að glata ekki því tækifæri að styrkja stoðir atvinnulífsins og grunngerða samfélags Vestfjarða. Vestfirðingar hafa ekki setið með hendur í skauti heldur hefur verið nýsköpun á mörgum sviðum, t.d. í ferðaþjónustu, sjávarútvegi og háskólastarfi. Það verður að gera Vestfjörðum kleift að vera samkeppnisfærir við aðra landshluta hvað varðar samgöngur, flutningskostnað og orkuverð og jafnframt verður að vinna að því að verðmætasköpun á Vestfjörðum skili sér aftur heim í hérað til uppbyggingar þar.