139. löggjafarþing — 82. fundur,  28. feb. 2011.

þróun fóstureyðinga.

527. mál
[17:19]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir fyrirspurnina og fyrir að vekja athygli á skýrslu velferðarráðherra og -ráðuneytis um stöðu jafnréttismála sem lögð var fram í febrúar. Ég held að það sé mikilvægt að slík gögn liggi fyrir þannig að menn geti fylgst með þróun mála.

Árið 2009 voru gerðar 971 fóstureyðing hjá konum með lögheimili á Íslandi, eins og komið hefur fram. Það eru heldur fleiri fóstureyðingar en undanfarin ár. Meðalfjöldi fóstureyðinga undanfarinna áratuga er um 930 en þær voru fæstar, eins og hér hefur komið fram, árið 2005, þá 868 talsins. Það er ekki alveg rétt að miða bara við það ár. Þær voru flestar árið 2000, þá voru þær 987.

Við samanburð á Norðurlöndunum kemur í ljós að fóstureyðingar hjá hverjum þúsund konum á aldrinum 15–49 ára voru árið 2009 fæstar í Finnlandi, 8,9, og flestar í Svíþjóð, 17,8. Þið sjáið að það er gríðarlegur munur á milli þessara landa. Noregur er hins vegar nálægt hinu norræna meðaltali með 14,1 fóstureyðingu á þúsund konur á sama aldri, Danmörk með 12,9 og Ísland er með næstfæstar fóstureyðingar, 12,4. Aldursdreifing er svipuð á öllum Norðurlöndunum, fóstureyðingar eru algengastar hjá konum á aldrinum 20–24 ára í öllum löndunum. Hins vegar fara hlutfallslega fæstar konur í elsta aldurshópnum, 45–49 ára, í fóstureyðingu og það eiga öll Norðurlöndin sammerkt.

Undanfarinn áratug hefur fóstureyðingum hjá ungum konum undir 20 ára aldri heldur farið fækkandi í þremur Norðurlandanna, Finnlandi, Íslandi og Noregi. Hvað Ísland varðar gengust 140 stúlkur, 19 ára og yngri, undir fóstureyðingu árið 2009 en þær hafa ekki verið færri úr þeim aldurshópi síðan árið 1991. Það er forvitnilegt að sjá að miðað við tölurnar frá 2009 hefur fækkað í yngsta aldurshópnum. Á hinn bóginn hefur fóstureyðingum meðal kvenna 40 ára og eldri fjölgað undanfarin tvö ár en tæplega 7% allra fóstureyðinga sem framkvæmdar voru árið 2009 voru hjá konum í þessum aldurshópi.

Þess ber að geta að í flestum hinna norrænu landa hafa fóstureyðingar verið löglegar síðan um miðjan áttunda áratuginn. Það er þó nokkuð mismunandi hvaða skilyrði þurfa að liggja til grundvallar áður en slík aðgerð er framkvæmd, sem kann að hafa áhrif á fjölda framkvæmdra fóstureyðinga í hverju landi fyrir sig. Í Svíþjóð er heimilt að fara í fóstureyðingu fram að 19. viku meðgöngu en á hinum Norðurlöndunum er miðað við að slíkar aðgerðir skuli ekki framkvæmdar eftir 12 vikna meðgöngu. Fóstureyðingar eru þó heimilaðar af læknisfræðilegum ástæðum eftir 12–18 vikna meðgöngu og þá í kjölfar álits sérfræðinga. Í Danmörku, Noregi og Svíþjóð geta þungaðar konur ákveðið að fara í fóstureyðingu upp á eigin spýtur en í Finnlandi og á Íslandi verður að liggja fyrir rökstudd greinargerð læknis eða félagsráðgjafa áður en aðgerð er framkvæmd. Það er auðvitað full ástæða til að hafa þann mismun í huga þegar löndin eru borin saman.

Ýmsar forvitnilegar umræður hafa átt sér stað m.a. varðandi fjölda fóstureyðinga árið 2010, 971 — ef maður skoðar það sem hlutfall af fæðingum — en fæðingar á síðasta ári voru fleiri en nokkru sinni áður. Ég held að einu sinni áður hafi verið jafnmargar fæðingar og í fyrra á einu ári. Það væri kannski áhugaverðara fyrir velferðarráðherrann að meta hvað olli hinum óvenjumikla fjölda fæðinga í fyrra, árið 2010, og um leið fóstureyðingum.

Ég held að það sem skiptir mestu máli í því sambandi sé að við höldum áfram að fylgjast með tölulegum upplýsingum sem landlæknir tekur saman. Landlæknisembættið tekur virkan þátt í samnorrænni og samhæfðri upplýsingasöfnun um fóstureyðingar. Það hefur gert það til fjölda ára og birtir þær upplýsingar reglulega. Ég held að það sé ekkert tilefni til að grípa til sérstakra aðgerða vegna nýjustu talnanna en auðvitað eigum við að vera vakandi og halda umræðunni gangandi þannig að við getum fylgst með hvernig búið er að fólki og hvort fóstureyðingum fjölgar. Það getur verið ein af afleiðingum kreppunnar og þá væri ástæða til þess að skoða hvort svo sé, en hingað til hefur sá sem hér stendur ekki gripið til neinna sérstakra aðgerða vegna þessara talna.