139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[16:23]
Horfa

Flm. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Forseti. Það er erfitt að svara hvoru tveggja á einni mínútu en ég skal reyna. Ég á ekki von á því að enginn vilji taka sæti í þessu ráði. Þarna er um að ræða fólk sem hefur boðið fram krafta sína og hefur kynnt það fyrir alþjóð hvaða sýn það hefur til breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins, fólk sem hlaut víðtækan stuðning í kosningu meðal yfir 500 manna. Ég á ekki von á að þessu fólki hafi snúist hugur og það vilji ekki taka þátt í því verkefni sem það bauð sig fram til og hlaut stuðning til. Ég óttast ekki að sú staða komi upp.

Hvað varðar kostnaðinn þá eru auðvitað fjárveitingar bæði frá fyrra ári, því að þjóðfundurinn var ódýrari en til stóð, og líka fjárveitingar á fjárlögum þessa árs ætlaðar til starfsemi stjórnlagaþings, sem verður þá ekki haldið ef þessi tillaga fær brautargengi í þinginu því að þá er ljóst að þau lög yrðu numin úr gildi. Jafnframt (Forseti hringir.) yrði auðvitað að sækja heimildir til Alþingis til fjárveitinga til starfsemi stjórnlagaráðs.