139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[16:29]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sá tillöguflutningur sem við ræðum er að mínu mati með svo miklum ólíkindum að ég veit eiginlega ekki hvar ég á að byrja. Við alþingismenn getum þó öll verið sammála um það að í honum felst að flutningsmenn tillögunnar vilja að niðurstaða Hæstaréttar sé að engu höfð, að a.m.k. sé farið á svig við hana. Það er ekki bara mín skoðun heldur tveggja lagaprófessora við Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík. Það liggur líka fyrir að æðsti yfirmaður dómsmála á Íslandi, dómsmálaráðherrann sjálfur, Ögmundur Jónasson, treystir sér ekki til að styðja tillöguna vegna þess að hún felur í sér að niðurstöðu Hæstaréttar verði ekki hlýtt með henni.

Mig langar að spyrja hv. þingmann að því hvernig þeir alþingismenn sem að tillögunni standa geta ætlast til þess að almenningur á Íslandi hlíti niðurstöðum æðsta dómstóls landsins í öðrum málum ætli þeir sér ekki að gera það sjálfir í þessu máli?