139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[18:05]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Nú liggur það fyrir að þrír hv. þingmenn þriggja stjórnmálaflokka á Alþingi, Samfylkingar, Vinstri grænna og Hreyfingar, hafa lagt fram tillögu þar sem lagt er til að skipað verði 25 manna stjórnlagaráð sem ætlað er að leggja til breytingar á stjórnarskránni. Þessi tillaga er í rauninni viðbragð við því dómadagsklúðri sem við urðum vitni að fyrir nokkrum mánuðum þegar upplýst var að við völd í þessu landi væri stjórn sem getur ekki staðið skammlaust að almennum kosningum í landinu. Þessi tillaga nýtur reyndar stuðnings þingmanns Framsóknarflokksins sem af einhverjum ástæðum hefur síðan ekki treyst sér til að standa að eigin tillögu í þinginu.

Virðulegi forseti. Ég tel að af þeim kostum sem í boði voru eftir að Hæstiréttur komst að niðurstöðu sinni hafi meiri hluti samráðsnefndar þingmanna valið þann versta sem í boði var. Með þessari tillögu leggja hv. þingmenn til að Alþingi Íslendinga hafi að engu niðurstöðu Hæstaréttar Íslands, æðsta dómstóls landsins, um að ógilda kosningu til stjórnlagaþings. Til að bíta höfuðið af skömminni gengur tillagan út á það að forseta Alþingis verði falið það verkefni að fullfremja verknaðinn.

Við skulum rifja það upp að kosið var til stjórnlagaþings á síðasta ári. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að framkvæmd kosningarinnar bryti í bága við lög landsins. Þess vegna var kosningin ógilt og í kjölfarið voru kjörbréf þeirra sem bestum árangri náðu ógilt. Kosningin hafði með öðrum orðum ekkert gildi. Engu að síður leggja hv. þingmenn nú til að áfram skuli haldið eins og ekkert hafi í skorist. Þeir 25 einstaklingar sem hlutskarpastir urðu í kosningunum ógildu og hafa ekki lengur kjörbréf frá landskjörstjórn upp á vasann skulu engu að síður taka sæti á þessari samkomu sem nú verður gefið annað nafn, stjórnlagaráð. Ég fæ ekki betur séð en að verkefni þeirra verði það sama, og launakjör væntanlega óbreytt.

Það blasir við öllum að með tillögu sinni leggja hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, Birgitta Jónsdóttir og Valgerður Bjarnadóttir það til að Alþingi fari á svig við niðurstöðu Hæstaréttar Íslands og hafi hana að engu. Það eru ekki bara pólitískir andstæðingar þingmannanna sem sjá þetta. Undir þá skoðun hafa tveir lagaprófessorar við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík tekið, þau Róbert Spanó og Ragnhildur Helgadóttir. Það hefur Ögmundur Jónasson, hæstv. innanríkisráðherra og æðsti yfirmaður dómsmála á Íslandi, einnig gert. Hann getur auðvitað ekki annað stöðu sinnar vegna. Dómsmálaráðherra landsins getur ekki stutt tillögu sem hefur það að markmiði að hafa niðurstöður æðsta dómstóls landsins að engu. Hann getur ekki tekið þátt í því að grafa undan dómskerfinu í landinu með þeim hætti. Það segir sig sjálft. Það er það sem þessi tillaga gengur út á og það upplýsti og staðfesti hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir í andsvari áðan þegar hún lýsti því yfir að það mætti ekki gerast að Hæstiréttur Íslands eyðilegði með lagatúlkunum sínum kosninguna til stjórnlagaþingsins. Á andsvari hv. þingmanns var reyndar greinileg einhver „frústrasjón“ út í forseta lýðveldisins fyrir að synja Icesave-lögunum staðfestingar, hún spilaði þarna inn í, en þetta kom fram í andsvari hv. þingmanns. Þá ber að hafa í huga að Hæstiréttur Íslands komst að niðurstöðu samkvæmt þeim lögum sem gilda í landinu og allir dómarar réttarins sem tóku þátt í því að taka þessa ákvörðun voru um það sammála.

Virðulegi forseti. Það er að mínu mati mjög alvarlegt mál að á Alþingi Íslendinga fyrirfinnist fólk sem sjái enga ástæðu til að farið sé að niðurstöðum Hæstaréttar. Enn alvarlegra er að hv. þingmenn virðast njóta liðsinnis og stuðnings hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra landsins við þennan fráleita tillöguflutning. Þeir alþingismenn sem flytja og ætla að styðja tillögu um stjórnlagaráð eins og hún er fram sett verða að svara þeirri spurningu hvort þeir telji yfir höfuð ástæðu til að hér á landi sé starfræktur Hæstiréttur. Afstaða þeirra til niðurstöðu dómstólsins í stjórnlagaþingsmálinu hlýtur að benda til þess að þeir telji dómstólinn óþarfan fyrst þeir sjá ekki ástæðu til að fara eftir niðurstöðum hans.

Þar við bætist auðvitað, virðulegi forseti, sú skammsýni sem í tillögunni felst. Ég spyr: Hvernig geta þeir hv. alþingismenn sem að tillögunni standa ætlast til þess að almenningur á Íslandi hlíti niðurstöðum æðsta dómstóls landsins í öðrum málum ætli þeir sér sjálfir ekki að hlíta niðurstöðu réttarins í þessu máli? Þeirri spurningu verða þingmennirnir auðvitað að svara. Hvað ætli yrði sagt ef Hæstiréttur Íslands ógilti kosningar til Alþingis eða sveitarstjórna? Við skulum tala um alþingiskosningar; hvað ætli yrði sagt ef Hæstiréttur Íslands ógilti kosningar til Alþingis en hópur manna mundi ákveða að þeir sem bestum árangri náðu í hinum ógildu kosningum mundu engu að síður taka sæti á Alþingi sem starfa ætti það kjörtímabil og undir nýju nafni? Það hefði kannski verið full ástæða fyrir hv. þingmenn sem flytja þessa tillögu og þá sem ætla eftir atvikum að styðja hana að velta því fyrir sér hvaða fordæmi þeir eru að gefa varðandi framtíðina.

Við höfum komið okkur saman um það í þessu samfélagi að hlíta niðurstöðum dómstóla, ekki síst æðsta dómstóls landsins, Hæstaréttar Íslands, enda verður niðurstöðum hans ekki áfrýjað. Þannig hefur það verið hér á landi, ekki bara í áratugi heldur í aldir, og þannig hefur það verið í öllum réttarríkjum þessa heims. Nú er verið að stíga skref í átt frá þeim sáttmála og þeirri sátt sem við höfum komið okkur saman um, bæði okkar kynslóð og fyrri kynslóðir. Það er dapurlegt að það séu þingmenn á Alþingi sem vilja stíga það skref.

Virðulegi forseti. Ég tel að hafi Ísland glatað trausti umheimsins í efnahagshruninu sé þessi tillöguflutningur ekki til þess fallinn að endurheimta það traust sem glatast hefur. Það eru sameiginlegir hagsmunir okkar Íslendinga að fréttir af því að hópur alþingismanna leggi það til við Alþingi að niðurstöður Hæstaréttar verði að engu hafðar berist ekki mjög langt út fyrir landsteinana. Slíkur fréttaflutningur mundi að mínu mati endurspegla skýrt í hversu miklar ógöngur stjórnmál á Íslandi eru komin þegar tillögur eins og þessar eru lagðar fram og það lagt til að þær verði samþykktar.