139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

þjóðgarðar.

[11:06]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Ég hlakka til þess að vera á opnum fundi með umhverfisnefnd á morgun um þessi mál og þá gefst meiri tími til að fara yfir það í smáatriðum. Ég vil sérstaklega geta þess sem varðar veiðarnar að í átta síðna greinargerð sem ég lét fylgja minni staðfestingu, einmitt vegna þessara atriða, lét ég þess sérstaklega getið að það sé sjálfsagt að fylgjast vel með þróun mála á þessu svæði sem um ræðir þegar veiðin er annars vegar, þ.e. veiðisvæðið í kringum Snæfell og Eyjabakka, því að þar þarf að fylgjast með þróun gönguferða, hvort hún verði með þeim hætti sem búist er við á næstu árum, og hvort það sé ástæða til að endurskoða þetta bann, en slík ákvörðun væri ákvörðun þjóðgarðsins.

Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að stjórn þjóðgarðsins hefji nú þegar öflugt samráð við þá aðila sem hafa af þessu hvað mestar áhyggjur, en það er ekki svo eins og þingmaðurinn tekur hér fram, hann orðar það svo að það séu meira og minna allir kolvitlausir, (Forseti hringir.) það eru nú töluvert margir aðilar, sem kannski hafa að jafnaði líka lægra í samfélaginu sem eru þeir sem fara frekar gangandi um hálendið, (Forseti hringir.) sem hafa verið sáttir við þessa verndaráætlun eins og hún er lögð fram. En við ræðum þetta væntanlega betur á morgun.