139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[19:02]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessir 25-menningar eiga samúð mína alla. Ég verð að viðurkenna það. Fyrst þær væntingar að gefa kost á sér til stjórnlagaþings og taka þátt í þeirri kosningabaráttu af alvöru og fullum mætti og með stefnumið og sóa fé og fjármunum í framboðið. Síðan er ákveðinn hópur kosinn og það koma fram kærur og skyndilega er kjörbréfið tekið af fólkinu því að umboðið var dregið til baka. Auðvitað má segja að þetta fólk eigi um sárt að binda en það má líka skrifa það alfarið á reikning þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr.

En talandi um það, stjórnlagaþingið er farið út af borðinu, það er alveg augljóst með því að þetta mál er komið fram. Stjórnlagaþingið kom og það fór. Það kom eðlilega með samþykkt allra þingflokka á Alþingi en það fór með úrskurði Hæstaréttar. Þessi tilraun er of dýr til að verða endurtekin. Nú þegar liggja þar 650 milljónir að baki. Við skulum átta okkur á því. Það er örugglega m.a. ástæðan fyrir því að hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir gerir ekki aðra tilraun að stjórnlagaþingi nú vegna þess að íslenska ríkið hefur einfaldlega ekki efni á að leggja aðrar 650 milljónir í undirbúninginn sem þarf til að kjósa upp á nýtt og semja ný lög. Þetta er staðan.

Þingmaðurinn spurði mig um hvort þetta yrði ekki máttlaust sem kæmi frá stjórnlagaráðinu. Auðvitað veikist og veikist sú niðurstaða sem stjórnlagaráð kemst að, þ.e. ef allir vilja taka sæti þar og það er ekki útséð með hvort allir vilja það. Í fyrsta lagi er það þannig að fólk verður kannski ekki sammála eins og gerist með þingmenn. Í öðru lagi er þetta orðið svo útþynnt og umboðið svo lítið, það er búið að dæma í Hæstarétti að það sé ógilt og það er komið með umboð sitt frá Alþingi (Forseti hringir.) eða forseta Alþingis. (Forseti hringir.) Þá erum við komin í hring því að það var markmiðið með stjórnlagaþingi að færa það út fyrir þessa veggi.