139. löggjafarþing — 86. fundur,  14. mars 2011.

athugasemdir frá sveitarstjórn Flóahrepps.

[15:40]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég er ein þeirra þingmanna sem tóku til máls í umræðu um hæstaréttardóm um skipulag í Flóahreppi. Mér er ljúft og skylt að gera grein fyrir því að ég hef opinberlega beðist velvirðingar á þeim mistökum sem mér urðu á þar þegar ég nefndi Flóamenn en átti í reynd við Skeiðamenn og Gnúpverja.

Í umræðunum hér, frú forseti, vísaði ég til þess að sveitarstjórnarmenn í Flóahreppi hefðu fengið 200 þús. kr. fyrir setu á óskráðum fundum. Það er rangt. Það voru sveitarstjórnarmenn í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, sem einnig höfðu gert samning við Landsvirkjun, sem fengu þær greiðslur eins og upplýst var af fyrrverandi sveitarstjóra Skeiða- og Gnúpverjahrepps, Sigurði Jónssyni, og staðfest af þáverandi oddvita og sveitarstjóra sama hrepps, Gunnari Erni Marinóssyni. (Forseti hringir.)

Ég hef beðist velvirðingar á þessum mistökum og mun senda sveitarstjórninni bréf þar að lútandi.