139. löggjafarþing — 91. fundur,  14. mars 2011.

kennaramenntun.

519. mál
[18:01]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Herra forseti. Kennaramenntun skiptir verulegu máli fyrir allt gott skólastarf og í breytilegu umhverfi okkar skiptir máli hvert við lítum þegar við ætlum að umbreyta kennaramenntuninni eða breyta henni til að kennurum sé fært að kenna á fleiri en einu skólastigi og uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til fagmennsku. Hvert viljum við líta?

Nýjasta könnun PISA sýnir að Finnar standa enn þá best að vígi allra Norðurlandaþjóða. Í ljós hefur komið að Svíþjóð hrapar niður. Hvert horfum við þegar við endurbætum kennaramenntun okkar? Ætlum við að horfa til þess hvað Finnar gera, hvernig þeir hafa tekið á málum? Eða ætlum við að líta til Svíþjóðar af því að þangað fara fleiri til náms en til Finnlands?

Það skiptir meginmáli fyrir okkur að hafa augun opin, horfa til þeirra sem standa sig best og spyrja þessara spurninga: Af hverju standa þessi lönd sig best? Hvað (Forseti hringir.) skilar bestum árangri í þeirra kennaramenntun?