139. löggjafarþing — 91. fundur,  14. mars 2011.

stúdentspróf.

522. mál
[18:42]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Við höfum verið nokkuð sammála fram að þessu varðandi menntamálin en ég held að við séum komin núna að ákveðnum kafla þar sem við erum ekki pólitískt sammála. Ég leyni því ekki að ég tel að hægt sé að nýta tímann miklu betur frá leikskóla til loka framhaldsskóla, þ.e. til stúdentsprófs, en við gerum í dag.

Íslendingar eru einir OECD-þjóða sem útskrifa tvítuga stúdenta. Allar aðrar þjóðir innan OECD útskrifa 18 og 19 ára stúdenta. Við erum með um 11 þúsund stundir fram að stúdentsprófi meðan Norðmenn eru með um 10 þúsund, Danir um 9 þúsund og Svíar tæplega 9 þúsund stundir. Við getum nýtt tímann betur. Í umræddri skólalöggjöf sem við samþykktum 2008 var einmitt gefið færi á því, ekki miðstýrt, að skólar gætu í ríkara mæli farið að bjóða upp þriggja ára nám til stúdentsprófs, þ.e. framhaldsskólar. Auk þess var nemendum í gegnum skólakerfið, í gegnum sveigjanleika á milli skólastiga líka gefið færi á að taka stúdentspróf á skemmri tíma en nú er.

Ég spurði ráðherra fyrr á yfirstandandi þingi hvaða aðrir nýir skólar hefðu farið af stað í þetta verkefni. Ég vissi að Menntaskóli Borgarfjarðar og Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ væru að byggja upp þriggja ára stúdentspróf, sama á við um Kvennaskólann sem er með lotubundið kerfi en ég veit til þess að aðrir skólar hafa óskað eftir því að taka upp svona kerfi, til að mynda Menntaskólinn á Tröllaskaga. Þætti mér gott að vita hvort það er rétt.

Enda þótt við höfum komist að þeirri niðurstöðu að nýta beri tímann í framhaldsskólanum betur er ljóst er að við komumst ekki hjá því að taka þá umræðu hvort við getum gert það í grunnskólanum. Meginmálið er að þora að viðurkenna að við getum nýtt tímann betur og útskrifað stúdenta fyrr en við gerum núna. Mikið er talað um kostnað og mikið hefur verið talað um kostnað í fyrirspurnum mínum í dag, m.a. varðandi samgöngumál og svo áðan varðandi menntamálin. Við skulum bara taka sem dæmi að ef 40% nemenda á framhaldsskólastigi útskrifast með stúdentspróf og 60% þeirra útskrifast á þremur árum og 40% á fjórum árum spörum við rúma 3 milljarða í kostnað. Ef við gefum okkur að 60% nema á framhaldsskólastigi, sem er ekki óraunhæft, útskrifist og 60% af þeim útskrifist á þremur árum og restin á fjórum árum sparar ríkið um 4,6 milljarða. Þá spyrja menn: Var leikurinn til þess gerður að spara fjármuni? (Forseti hringir.) Nei, að sjálfsögðu ekki. Við viljum nýta tímann betur og ef það þýðir að við getum sparað fjármuni um leið þá er það rétt og það er vel, því að (Forseti hringir.) við þurfum að koma til móts við skólakerfið í ríkara mæli en við höfum gert fram til þessa. Við töluðum (Forseti hringir.) áðan um bætt umhverfi kennara. Ég held að þetta sé m.a. leið til að koma til móts við þau sjónarmið.