139. löggjafarþing — 92. fundur,  15. mars 2011.

framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

557. mál
[14:51]
Horfa

Frsm. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kom upp áðan undir liðnum um störf þingsins og lýsti þeim þungu áhyggjum sem ég hef af lagasetningunni. Ekki veitir af og enn þá leggst þetta verr í mig þar sem þetta mál var tekið út úr allsherjarnefnd í gær og þá voru málin rædd á annan hátt.

Nú eru kynntar til sögunnar breytingartillögur á þann hátt að fella eigi 13. gr. laga um þjóðaratkvæðagreiðslur alfarið úr gildi og kæruleiðir alfarið út að því frátöldu að nú á landskjörstjórn ein að úrskurða um gildi kosninganna. Mér finnst þetta miður og raunverulega skil ég ekki hvað er verið að fara með þessu, hvers vegna æðsti dómstóll landsins fær ekki lengur að úrskurða um deilur sem upp koma í svona viðkvæmu máli, þjóðaratkvæðagreiðslum. Það eru bara umdeild þjóðfélagsleg mál sem koma til atkvæðagreiðslu hjá þjóðinni. Þess vegna verður að vera alveg skothelt að hafa kæruleið alla leið upp í Hæstarétt án viðkomu í héraðsdómi eins og breytingartillaga mín gengur út á. Hún gengur í meginefni út á það að 13. gr. laganna haldi sér þar sem Hæstiréttur, æðsti dómstóll landsins, er með lokaúrskurð.

Mig langar til að biðja formann allsherjarnefndar, Róbert Marshall, að fara yfir það lið fyrir lið hvað gerist nákvæmlega ef kosning sem er efnt til á grunni laga um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna verður kærð.