139. löggjafarþing — 92. fundur,  15. mars 2011.

framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

557. mál
[17:14]
Horfa

Frsm. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég hef farið fram á fund í allsherjarnefnd vegna þess að þetta er mjög óskýrt. Í upphaflegum frumvarpsdrögum eru lagðar til breytingar við síðari málslið 3. mgr. 13. gr. þar sem verið er að bæta við þá lagagrein sem er þegar til. Ég þarf ekki að kenna þingmanninum lögfræði, hann er lögfræðingur sjálfur, en í þeim breytingartillögum sem koma núna frá meiri hluta allsherjarnefndar inn í þingið á þessu nefndaráliti er einfaldlega lagt til að 13. gr. laganna orðist eins og ég las. Þá er verið að fella alfarið burt 13. gr. eins og hún stendur í lögunum nú og þar með öll ákvæði sem lúta að Hæstarétti og jafnframt að breyta þeirri tillögugrein sem kom fram í því frumvarpi sem er til umræðu.

Þetta skulum við ræða í allsherjarnefnd. Ef meiningin með því að dómstólarnir eigi að vera hér inni er að það eigi að vera hægt að skjóta þessu til Hæstaréttar fagna ég því. Eins og málið lítur núna út er það hins vegar ekki hafið yfir allan vafa og að mínu mati er m.a.s. búið að þurrka Hæstarétt út.

Mig langar til að spyrja þingmanninn annarrar spurningar. Í 2. mgr. nýrrar 13. gr. laganna kemur fram, með leyfi forseta:

„Gallar á kosningu leiða ekki til ógildingar kosninga, nema ætla megi að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosninganna.“

Finnst ekki þingmanninum þetta afar opið ákvæði og mjög matskennt? Í röksemdafærslu þeirra sem eru andvígir úrskurði Hæstaréttar í stjórnlagaþingskosningunni er alltaf talað um að gallar kosningarinnar hafi ekki verið það miklir og það hafi verið alveg óþarfi af Hæstarétti að ógilda kosninguna. Raunverulega er það stjórnarskrársniðganga að (Forseti hringir.) fara ekki að úrskurði Hæstaréttar. Þá er einmitt talað um að þetta ákvæði hafi verið svo smávægilegt. Er ekki ákvæðið allt of opið að mati þingmannsins?