139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[21:25]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg hjartanlega sammála þeirri niðurstöðu sem kom hér fram. Þessi breytingartillaga er byrjunin. Sá gagnagrunnur sem safnað hefur verið af þessari nefnd — sem var upplýst um án þess að ég sé að aflétta trúnaði í allsherjarnefnd að á að skila skýrslu, sem er í tveimur bindum og afar vönduð vinna sem vekur hjá mér miklar vonir — með því að nefndin skili þessum gagnagrunni af sér til Alþingis með drögum að frumvarpi sem alþingismenn taka við verðum við komin með stjórnskipunarvaldið aftur heim, þá fer málið í venjulegan farveg í allsherjarnefnd. Þetta er það sem ég sé fyrir mér og þá erum við líka að vinna akkúrat eins og nefndin gerði, stjórnarskrárnefndin sem starfaði hér 2005–2007.

Mér finnst skemmtilegt að þingmaðurinn minnist á það að Jón Kristjánsson hafi verið guðfaðir stjórnlagaþingshugmyndarinnar í Framsóknarflokknum, hann var mjög mikill áhugamaður um stjórnskipunarbreytingar, enda fór hann fyrir þessari nefnd fyrir hönd þingsins. Ég held ég sé ekki að aflétta neinum trúnaði hér en Jón Kristjánsson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, sagði það fyrir nefndinni að væri hann þingmaður í dag mundi hann aldrei nokkurn tímann láta sér detta í hug að greiða þessari þingsályktunartillögu um stjórnlagaráð atkvæði sitt. Jón Kristjánsson hefur kynnt sér stjórnarskrána það vel að hann veit að í 2. gr. felast valdmörk dómsvalds, framkvæmdarvalds og löggjafarvalds, hin svokallaða þrígreining. Við búum í réttarríki og þetta veit sá fróði maður sem hefur kynnt sér þessi mál svona vel. En því miður veit meiri hlutinn á Alþingi ekki að þetta er til staðar með þessum hætti. Þess vegna er talað hér um stjórnarskrársniðgöngu. Þessi ummæli Jóns Kristjánssonar glöddu mitt gamla framsóknarhjarta og því geng ég (Forseti hringir.) létt í spori frá þessu máli í þinginu, því að þetta er ekki (Forseti hringir.) stjórnlagaþing eins og haldið er fram. Ríkisstjórnin blés stjórnlagaþingið sjálf út af borðinu. (Forseti hringir.) Það kom og það fór ...