139. löggjafarþing — 94. fundur,  16. mars 2011.

mat á skilaverði eignasafns Landsbanka Íslands hf.

563. mál
[18:09]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni um að afar mikilvægt er að menn geri sér grein fyrir virði eignasafns Landsbanka Íslands þegar tekin er afstaða til þess hvort skynsamlegt sé að ljúka samningunum um Icesave-deiluna með þeim hætti sem þingið hefur lagt til.

Það er eitt atriði sem mig langar til að spyrja hv. þingmann um. Ég get tekið undir með honum að það væri mjög gott að hafa mat tveggja óháðra aðila á eignasafninu, eins og hann leggur til með þessu þingmáli, en ég velti fyrir mér hvort þingið sé einfaldlega í færum til þess að taka þá ákvörðun. Þrotabúið er sem sagt í ákveðnu lagalegu umhverfi og fjármálaráðherrann er í sjálfu sér ekki með neinar valdheimildir til að fara fram á afhendingu gagna frá þrotabúinu þrátt fyrir að við höfum ályktað um það á þinginu að hann skyldi ráða tvo óháða aðila til að framkvæma það verk. Ég velti því fyrir mér hvort tillagan gangi upp lögum samkvæmt í framkvæmd. Það er aðallega það sem ég vildi nefna og ég held að nefndin hljóti að þurfa að skoða það.

Við höfum margoft rætt það í meðförum Icesave-samninganna í þinginu að við vildum fá betri upplýsingar. Því sem ég mundi vilja skjóta að í umræðunni er að íslenska ríkið nýtur ákveðinnar stöðu gagnvart þrotabúinu sem kröfuhafi og eftir atvikum væri kannski hægt fyrir hæstv. fjármálaráðherra að kalla eftir nýjustu skýrslu frá Deloitte sem kynnt var kröfuhöfum á fundi í London fyrir skemmstu (Forseti hringir.) og koma henni á framfæri við almenning ef hægt er.