139. löggjafarþing — 95. fundur,  17. mars 2011.

norrænt samstarf 2010.

595. mál
[12:57]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Illa þekkir hv. þingmaður vini sína og vinaþjóðir því auðvitað var það ekki á grundvelli fjárhagslegra hagsmuna að Norðurlöndin lánuðu okkur fé í okkar miklu efnahagslegu þrengingum. Það var eitthvað sem engin þjóð vildi gera og engar fjármálastofnanir því það var ósköp augljóst að veruleg hætta var á því, eins og aðstæður voru þá, að þeir fjármunir sem hingað væru lánaðir kynnu að glatast. Það að Norðurlandaþjóðir veittu okkur lánafyrirgreiðslu við þessar aðstæður sýndi að þetta eru þær þjóðir sem eru sannarlega vinaþjóðir okkar og láta ekki hagsmuni eina ráða heldur eru tilbúnar til að koma okkur til aðstoðar í þrengingum. Icesave-málinu er enn ekki lokið og þó hafa þær greitt allt það lánsfé sem lofað var til þessa.

Hitt er rétt og hefur oft verið mistúlkað að auðvitað hvöttu þær til að óvissu þeirri sem hér var í stórum málum eins og Icesave væri eytt og að Ísland uppfyllti alþjóðlegar skuldbindingar sínar. Þannig var það orðað. Það var aldrei orðað þannig að við ættum að undirgangast einhverja afarkosti af einhverra hálfu. Og þó að sú deila sé enn óleyst ítreka ég að lánafyrirgreiðslan hefur verið veitt.

Um lyfjamálin var það hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sem í tíð sinni sem heilbrigðisráðherra tók það mál upp við kollega sína á Norðurlöndunum og var tekið til nokkurrar umfjöllunar. Nú er til umfjöllunar í þinginu frumvarp sem á að heimila að Ríkiskaup geti farið í útboð á norrænum vettvangi í samvinnu við aðra til að ná niður lyfjaverði. Ég held að það sé ágætt dæmi um enn eitt sviðið þar sem við getum eflt og aukið norrænt samstarf og notið hagsbóta af því.

Ég mun freista þess (Forseti hringir.) að ræða innlánstryggingarnar í síðara svari mínu.